145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða, enda er málasvið innanríkisráðuneytisins mjög víðtækt. Ég ætla að ræða hér um málefni hælisleitenda.

Ég hjó eftir því í umræðunni að menn eru sammála um að gera þurfi betur í fjárlögunum en nú liggur fyrir, enda hafa aðstæður breyst mjög mikið frá því að fjárlögin voru unnin og við munum öll sem eitt, geri ég ráð fyrir, taka saman höndum um að reyna að meta hvar fjármuni skortir og reyna að bæta í. Móttökumiðstöðin er undir fjárlagalið 399. Mig langar að fá ráðherrann til að fara aðeins yfir það með okkur.

Það er áhersla stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar að móttökumiðstöðin verði öflug eining til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað, þ.e. að annast móttöku þeirra hælisleitenda sem hingað koma, fara yfir þau atriði með þeim sem þarf að skýra og koma þeim svo áfram í kerfinu. Þetta er í liðnum 399, enda er hann ekki sundurgreindur, en ég vil ítreka að það er stefna stjórnvalda að móttökumiðstöðin verði öflug.

Ég hef áhyggjur af því að þau mál er varða hælisleitendur og flóttamenn séu ekki öll á sama stað innan okkar kerfis. Ég hef þá skoðun að þeim málum sé best fyrir komið í innanríkisráðuneytinu. Ég hef tekið saman upplýsingar um það með hvaða hætti málum er háttað í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við og er þeim þannig háttað að þau eru á einum stað og í því ráðuneyti sem helst líkist okkar innanríkisráðuneyti. Ég hef skoðað Holland, Belgíu, Þýskaland, Bandaríkin, Kanada, Noreg, Svíþjóð og Írland.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði, þ.e. þá hælisleitendur sem nú eru staddir hér á landi. Við þekkjum öll þá bylgju sem varð í samfélaginu fyrir nokkrum dögum þar sem menn buðu fram aðstoð sína og sveitarfélög bjóðast til að taka á móti kvótaflóttafólki. En það er ekki eina fólkið sem leitar hingað. Hér eru hælisleitendur og hér eru til dæmis fjölskyldur frá Sýrlandi í dag sem bíða eftir að fá aukna þjónustu. Við erum með fjölskyldur með börn sem enn hafa ekki fengið pláss í skólum landsins. Af þessu hef ég miklar áhyggjur. Ég vil hér kalla eftir því að ráðherra upplýsi okkur aðeins um hver staðan á þessu er, en ég tel að það skorti á að sveitarfélögin stigi fram og segist líka vilja aðstoða og þjónusta þennan hóp. Þetta snýst ekki bara um kvótaflóttafólk. Þetta snýst um fólkið sem er komið til okkar. Ef við náum ekki að valda því verkefni að sinna þeim skyldum okkar gagnvart því fólki og þá sérstaklega gagnvart þeim börnum sem sitja heima og eru ekki komin inn í skólakerfið þá þurfum við aðeins að taka okkur tak áður en við förum að taka á móti fleira fólki.