145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sleppur ekki svona auðveldlega, hún þarf að taka heila umferð í viðbót af umræðum, sem er vel vegna þess að við þurfum að fara yfir margt, hún er með víðfeðmt og stórt ráðuneyti.

Mig langaði að nefna að það er býsna svekkjandi að sjá að ríkisstjórnin gefi ekki meira í þegar kemur að nýframkvæmdum í vegamálum og samgöngum. Ráðherrann er greinilega þeirrar skoðunar líka og það kom fram í máli hennar að hún hefði viljað sjá meiri fjármuni til nýframkvæmda, en það var, við skulum orða það fallega, sykurhúðað af henni þegar hún talaði um sígandi lukku til að reyna að tala í okkur kjark. En auðvitað getum við ekki farið inn í ár eftir ár þar sem ekki er lagt nægilegt fé til nýframkvæmda. Við erum á þeim stað núna að við þurfum á fjölmörgum sviðum aldeilis að taka okkur tak. Sem dæmi þá er enginn munur núna milli ára og þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt neina stefnu í því með hvaða hætti hún ætlar að auka í til lengri tíma. Í ár kemur til nýframkvæmda um fjórðungur af þeim fjármunum sem voru til nýframkvæmda árið 2008, fjórðungur. Það er allt og sumt. Þetta þarf auðvitað að laga vegna þess að verkefnin bíða og þetta er öryggismál. Það er stóraukið álag á samgöngukerfi landsins með tilkomu ferðamannanna og þeirrar aukningar sem þeim hefur fylgt og við verðum einfaldlega að mæta þessu með því að fara í framkvæmdir fyrir utan auðvitað að við erum öll sammála um að það þarf að auka lífsgæði fólks víða um land og það felst í samgöngum að stærstu leyti, þannig að það sé sagt hér.

Það hversu illa okkur hefur gengið að auka fjármuni í samgöngumálum hefur birst í því að við höfum ekki einu sinni náð að klára samgönguáætlun í gegnum þingið. Það er engin stefna í samgöngumálum og ég ætla að segja það við hæstv. innanríkisráðherra að það vantar ekki stuðning frá okkur í Samfylkingunni við að auka þarna í og við, ef ríkisstjórnin er ekki til í það, erum tilbúin til að styðja við bakið á henni í því.

Það var líka dálítið áfall að sjá það að menn ætluðu að taka þær 500 millj. kr. til baka sem áttu að fara í flugvellina. Þarna eru menn farnir að nýta hluta af því fé t.d. á Gjögri og við hefðum viljað sjá að menn héldu þeim fjármunum inni þrátt fyrir einhverja tæknilega örðugleika hvað þá varðaði.

Ég mundi vilja heyra frá hæstv. ráðherra hver stefnan er í samgöngumálum. Eru menn að leggja fyrir einhverja áætlun um það hvernig eigi að auka í og hvaða framkvæmdir eigi að fara í? (Forseti hringir.) Er von á því að við náum að klára raunhæfa samgönguáætlun í vetur? Hvað ætla menn að gera og hversu mikla fjármuni telur ráðherrann að við getum og þurfum að setja í málaflokkinn á næstu árum?