145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það afskaplega bagalegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að engin samgönguáætlun sé í gildi um þessar mundir. Núna á vormánuðum var það í þriðja skiptið í röð sem samgönguáætlun fékkst ekki afgreidd í þinginu. Reyndar bar ég ekki mikla von í brjósti um þá áætlun í vor, enda lagði ég hana fram allt of seint eins og hefur þegar komið fram og er ekki ástæða til að orðlengja það neitt frekar. Engu að síður var hún lögð fram þannig að menn sáu hvaða stefnumörkun liggur að baki.

Ég er hins vegar ákveðin í því að leggja fram nýja samgönguáætlun hið allra fyrsta. Það er eiginlega ekki heppilegt að samgönguáætlun komi yfirleitt á vormánuðum, það væri miklu betra að hún kæmi sem fyrst eftir að þing kemur saman. Ég vonast til þess að hún komi á næstu vikum, þ.e. fjögurra ára samgönguáætlun, en jafnframt er í vetur ráðgert að við höfum til umfjöllunar 12 ára samgönguáætlun. Ég held að það sé kannski sú áætlun sem verður mjög spennandi fyrir okkur að ræða, því að þar erum við náttúrlega komin í langtímastefnumörkun í samgöngumálum. Ég held að þar munum við sjá betur stefnu sem unnið verður eftir á næstu árum. Þetta er auðvitað verkefni sem fer þvert á öll kjörtímabil en ekki verkefni sem einhver ein ríkisstjórn ræðst í. Við höfum verið að vinna þetta jafnt og þétt ár eftir ár.

Við vitum að árið 2008 var mjög mikið framkvæmdaár í samgöngum og það er heldur óhagstæður samanburður að bera saman við það ár. Þá lögðum við gríðarlega mikið aukið fjármagn í samgöngumál, eins og við þekkjum, og það hjálpaði okkur að sjálfsögðu í gegnum áföllin sem dundu yfir að hafa gert það. Ég ætla ekki að nefna neinar tölur í því sambandi en get hins vegar sagt það að samgönguráðherra á hverjum tíma hefur oft allt aðrar hugmyndir um það hvaða peningar þurfa að fara í samgöngumál en til dæmis fjármálaráðherra hvers tíma. En það er augljóst að ekki verður allt fyrir alla gert og það þurfti í þessum fjárlögum að forgangsraða mjög mikið. Það komu líka aukin útgjöld í vor miðað við þá ríkisfjármálaáætlun sem við höfðum unnið eftir. Þá er ég að líta til til kjarabótanna (Forseti hringir.) sem við fórum í. Það takmarkaði nokkuð það fé sem við höfðum ráðgert að við gætum sett í samgöngumál fyrir árið 2016 af því að ríkisstjórnin var ákveðin í því að forgangsraða frekar í aðra málaflokka.