145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Má ég minna á að á þessu ári lagði ríkisstjórnin til að settir yrði í fjáraukalög fyrir þetta ár tæpir 2 milljarðar til viðbótar í samgöngumál, ekki síst vegna þeirra tækifæra sem skapast hafa í ferðaþjónustu. Það var ákvörðun okkar að þau samgönguverkefni ættu að nýtast í okkar almenna samgöngukerfi en styðja jafnframt við þann mikla vöxt sem hefur verið í ferðaþjónustunni. Það er aldeilis klár stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnar þegar slík ákvörðun er tekin.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér — ja, það er svo gaman að þessu, það er alveg sama hvaða tala er nefnd, hún er aldrei nóg. Ef ég mundi nefna 100 milljónir mundu menn ábyggilega vilja 200 milljónir. Þetta er bara einn af þeim málaflokkum sem geta tekið endalaust fé til sín. Það þarf að forgangsraða í ríkisfjármálum og við þurfum að ná hér tökum á hlutum og ég mun verja það að við forgangsröðum í þágu annarra málaflokka. Það kostar einfaldlega það að menn þurfa að vera þolinmóðir í samgöngumálum. Það er bara allt í lagi.

Varðandi millilandaflugið þá er nú nefnd að störfum, ég get upplýst hv. þingmann um það, undir forustu hæstv. forsætisráðherra, um að skoða millilandaflug á tiltekna staði úti um land. Ég hygg að það séu akkúrat þeir staðir sem hv. þingmaður nefndi, Egilsstaðir og Akureyri. Sú nefnd hefur ekki lokið störfum og ég hef ekki upplýsingar á þessu stigi nákvæmlega um hvaða tillögur þar verða á ferðinni. Ég býst við því að þegar þær tillögur koma fram munum við ræða þær, hvað hægt sé að gera í þessu og hvort skynsamlegt sé að nýta þessa flugvelli til millilandaflugs.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er náttúrlega mjög mikilvægt að við náum betri dreifingu ferðamanna um landið. Ég þekki það bara úr Norðausturkjördæmi. Þar væri óskandi að við sæjum fleiri ferðamenn, ég tala nú ekki (Forseti hringir.) um á austanverðan hluta landsins þar sem náttúrufegurð er mikil.