145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi móttökumiðstöðina eru þeir fjármunir sem til hennar eru ætlaðir undir liðnum hælisleitendur. Það er ekki sérgreint en þeir fjármunir eru þar undir.

Aukafjármunir voru settir almennt í Útlendingastofnun fyrir þetta ár til að mæta þeim hala sem á stofnuninni hvíldi. Menn töldu að það næðist, að ekki þyrfti að tryggja það fé aftur. Ef við tökum það til greina er ekki um lækkun að ræða, þ.e. ef maður leggur það saman var ekki ætlunin að setja þyrfti aukinn kraft í það. Það hefur hins vegar komið í ljós að sú niðurstaða var ekki skynsamleg og af þeim ástæðum eru núna ákveðnar 50 milljónir til viðbótar til Útlendingastofnunar. Það er veruleg aukning og á að nota til að stofnunin geti ráðið til sín frekara starfsfólk, t.d. á sviði lögfræði til að glíma við þau álitamál sem þarf að leysa úr og reyna að ná betri tökum á þessu öllu saman.

Svo skýrði ég líka frá því hér fyrr að kærunefnd í útlendingamálum þyrfti tíma til að ná fótfestu í starfi. Allt þetta bætist við þá aukningu sem nú er að verða og það þarf að taka fram að þessi mikla aukning hefur bara orðið á allra síðustu vikum. Það var hæg hækkun á árinu sem við höfðum ráðgert en það eru bara örfáar vikur síðan allt þetta síðasta byrjaði.

Ég hafna því alveg að það sé engin stefnumörkun í samgöngumálum og bendi á að í gildi er langtímasamgönguáætlun. Eftir henni er unnið. Síðan höfum við, og það hefur verið mín áhersla, aukið ásjónu samgönguráðuneytisins í ferðamálum og ég hef í sumar sérstaklega kallað eftir því í (Forseti hringir.) stofnunum innanríkisráðuneytisins að þær líti til þessa ferðamannasumars til að geta lært af því stefnumörkun til framtíðar. Það er mikilvægt að þessir málaflokkar tali vel saman. Í eina tíð var þetta reyndar í sama ráðuneytinu og það getur verið að það sé að vissu leyti ástæðan fyrir því að manni finnist þurfa að skilja á milli, en þetta heyrir ekki undir sama ráðherrann.