145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil kannski frekar nefna og vekja athygli á þeim verkefnum Landhelgisgæslunnar sem hún sinnir í tengslum við þá umræðu sem hér hefur verið um málefni flóttamanna. Ég verð bara að taka það fram að Landhelgisgæslan hefur nú, eins og við vitum, um nokkurra missira skeið rekið eitt skip, varðskipið Tý, við Miðjarðarhaf og bjargað þar fjölda manna og það hefur haft mikla þýðingu fyrir Gæsluna að geta staðið í þeim verkefnum.

Að sjálfsögðu eins og alltaf væri hægt að bæta í fjármuni til Landhelgisgæslunnar en ég held að þetta sé nú allt í lagi, þær fjárveitingar sem þarna eru ráðgerðar. Landhelgisgæslan er alveg prýðilega rekið fyrirtæki og stendur sína vakt með prýði.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því enn fremur að það fer að styttast í að við þurfum að veita verulega mikla fjármuni til Landhelgisgæslunnar en koma fer að því að við þurfum að endurnýja þyrlubúnað Gæslunnar. Þar undir eru gríðarlega miklar fjárfestingar. Við þekkjum það núna að við erum með þyrlur á leigu. Af því hlýst náttúrlega mikill kostnaður fyrir ríkissjóð. Þetta er verkefni sem okkur ber og við verðum að sinna af kostgæfni en það fer að styttast í að við þurfum að taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að halda á þyrlumálum til framtíðar, hvort áframhald verði á leigu þyrlna eða hvort ríkissjóður treystir sér til að kaupa þyrlur handa Landhelgisgæslunni. Enn og aftur, þar erum við ekki að tala um nokkra milljarða, þetta eru feikilega miklar fjárfestingar sem þar eru undir en er á einhverjum tímapunkti óumflýjanlegt að fara út í.