145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:21]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna svari hæstv. ráðherra og fagna því að hún skuli minnast á þyrlurnar því að í rauninni er það kannski bara skammarlegt að við skulum ekki vera búin að setja meira fútt í það en ég fagna því að hún sé með það á takteinum. Það er svolítið umhugsunarefni að Landhelgisgæslan þurfi að vera í einhverjum verkefnum erlendis. Þetta eru góð og gild verkefni eins og hæstv. ráðherra sagði en það er aðeins umhugsunarefni að Landhelgisgæslan þurfi að vera í einhverjum verkefnum til að vinna fyrir sér og að við skulum ekki veita meira fjármagn í hana.

Annað mál, hér er liður 662 í fjárlögunum um hafnarframkvæmdir. Mig langar að fá aðeins útskýringu á þeim mismun sem er í samgönguáætlun sem hæstv. ráðherra lagði hér fram fyrir árin 2015–2018 og var nánast afgreidd hér í vor en illu heilli datt ekki réttum megin í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna. Þar er gert ráð fyrir 1.072 milljónum í hafnarframkvæmdir 2016 en nú eru það 845 milljónir. Hafnarframkvæmdir, á meðan við borgum veiðigjöld upp á 9,4 milljarða er þá ekki lag að hafnir — því að við gerum okkur grein fyrir að við nýtum ekki sjávarauðlindir nema í gegnum hafnirnar, en þar er skorið svona við nögl og til Hafnabótasjóðs sem var í fjögurra ára samgönguáætluninni 535 milljónir eru aðeins 212 milljónir í ár. Það er 322 milljónum (Forseti hringir.) minna í Hafnabótasjóð núna en gert var ráð fyrir í fjögurra ára áætlun fyrir 2016. Ég hefði viljað fá útskýringar á því.