145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir skildi við hann og leggja á það áherslu hve mikilvægt það er að við höfum náð mjög sögulegri vinnu í þingmannanefndinni sem unnið hefur að endurskoðun á lögum um útlendinga. Mig langar að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir hennar þátt sem og ráðuneytisins í að tryggja að við getum komið þessum sögulega lögum í gegnum Alþingi, enda löngu tímabært.

Mér finnst mjög mikilvægt að meira fé sé veitt núna í þennan málaflokk — en höfum það í huga að það var búið að draga niður um 25 milljónir þannig að þetta eru í raun og veru aðeins aukalega 25 milljónir — þegar ljóst er að það er að hefjast atburðarás sem við ráðum ekki við. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um að það sé mjög brýnt að sveitarfélögin taki við sér. Okkur í þingmannanefndinni sem hefur komið að ráðgjöf varðandi lög um málefni útlendinga var boðið til Rauða krossins rétt eftir að þessi mikla bylgja hófst í samfélaginu, sem er mjög ánægjuleg bylgja þar sem einstaklingar hafa stigið fram og boðist til þess að taka þátt í þessu mikla verkefni er lýtur að móttöku flóttamanna. Við áttum góðan fund með Rauða krossinum og þar kom meðal annars fram að þar streymdu inn sjálfboðaliðar og þeim var bent á að það eru einmitt töluvert margir hælisleitendur hér nú þegar sem þurfa nákvæmlega sömu aðstoð. Mig langar að spyrja ráðherra að því hvort það sé ekki svolítið hættulegt þegar maður dregur fólk svona í dilka. Auðvitað er mikill munur á kvótaflóttamönnum og þeirri þjónustu sem þeir fá og öðrum en ætti það ekki einmitt að vera okkur til brýningar að hjálpa t.d. þeim fjölskyldum sem nú þegar eru hér og hafa kannski beðið lengi? Þó að núna sé mikil flóðbylgja eru enn þá allt of margir sem bíða.

Mig langar bara brýna ráðherrann til verka og spyrja hana hvort það sé eitthvað sem við getum gert hér á þinginu til að tryggja að sá farvegur sem ráðherrann hefur nú þegar komið mikið af þessum málum í haldist opinn og flöskuhálsar verði ekki allt of margir.