145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það vill þannig til að undir verksvið hæstv. innanríkisráðherra heyra mjög ólíkir málaflokkar eins og hefur endurspeglast í umræðunni hér í dag, annars vegar málefni sem áður heyrðu undir dómsmálaráðuneyti og hins vegar málefni samgönguráðuneytisins gamla. Umræðan ber þess auðvitað merki.

Fyrst ætlaði ég að nefna að ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði í sambandi við þau mál sem hér hafa verið tengd flóttamönnum, hælisleitendum og þeim stofnunum sem fara með málefni þeirra. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að sennilega stöndum við frammi fyrir meiri breytingum á þessu sviði en við höfum séð jafnvel frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Það er talað um að flóttamannafjöldinn í Evrópu eða sem stefnir til Evrópu sé meiri nú en hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldar þegar milljónir manna færðust vissulega á milli. Þetta gerir það að verkum, eðlilega, að þær stofnanir sem eiga að sinna þessum málum þurfa að laga sig að gerbreyttum veruleika. Ég fagna þeirri stefnumörkun sem ráðherra hefur sett af stað í þeim efnum og vonast til þess að við getum í meðförum þingsins fylgt því eftir eftir þeim forskriftum sem hér hafa verið til umræðu.

Ég ætlaði að nefna í þessu samhengi örstutt að við þurfum að sjálfsögðu líka, vegna þess að við erum í breyttu umhverfi að svo mörgu leyti, að huga að öðrum stofnunum sem hafa snertifleti við þætti þessara mála. Þá er ég til dæmis að velta fyrir mér löggæslustofnunum eða þeim deildum lögreglunnar sem hafa snertifleti við þetta. Ég hef áður í umræðum nefnt landamæralögreglu, greiningardeild ríkislögreglustjóra, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og aðrar slíkar sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við upplýsingaöflun og alþjóðleg samskipti á þessu sviði. Ég vildi nefna það í þessari umræðu.

Ég ætla líka að nefna samgöngumálin. Ég hef auðvitað, eins og margir þingmenn sem hér hafa talað, áhyggjur af því að samgöngumálin fái ekki nægilegt fjármagn. Ég ætla ekki að gera athugasemd við þá forgangsröðun sem fram hefur komið af hálfu hæstv. ráðherra. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að við séum ekki að gera nóg þrátt fyrir viðleitni til þess að bæta núverandi vegakerfi. Það þýðir í raun og veru (Forseti hringir.) að við erum fyrst og fremst að fresta vanda enn um hríð á því sviði.