145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þann hluta fjárlaga er snýr að utanríkisþjónustunni. Utanríkisþjónustan hefur það verkefni að gæta hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi sem og að þjónusta Íslendinga og íslensk fyrirtæki á erlendri grundu. Þrátt fyrir að tækni og tíðarandi hafi breyst mikið er grunnstefið í skyldu utanríkisþjónustunnar hið sama en aðferðirnar kannski aðrar. Í breyttum heimi eru víða tækifæri til að vinna að bættum hag lands og þjóðar. Utanríkisþjónustan mun áfram leggja sitt af mörkum við að nýta tækifærin og vinna að hagsmunum Íslendinga erlendis.

Smærri þjóðum er eðli máls samkvæmt oft sniðinn þrengri stakkur en þeim fjölmennari þegar kemur að umfangi stjórnsýslu, þar á meðal utanríkisþjónustu. Því er enn mikilvægara að forgangsraða litlum fjármunum og sýna ráðdeild í rekstri. Utanríkisráðuneytið hefur unnið í því að hagræða á undanförnum árum sem hefur skilað bættri þjónustu fyrir minna fé.

Í kjölfar hruns bankakerfisins árið 2008 urðu íslensk stjórnvöld að spara gjaldeyri. Því voru fjárheimildir til utanríkismála skertar verulega. Fyrr á þessu ári benti Ríkisendurskoðun á það í skýrslu sinni um rekstur og starfsemi sendiskrifstofa að rekstrarkostnaður þeirra hafi minnkað um 30% á árunum 2007–2013 að teknu tilliti til þróunar gengis og verðlags. Og hagræðingin hélt áfram eftir það.

Þetta hefur óneitanlega haft áhrif á getu utanríkisþjónustunnar til að vinna að hagsmunum Íslands erlendis. Því fagna ég að nú gefst tækifæri til að hefja uppbyggingarstarf að nýju því að fram undan eru spennandi tækifæri og um leið óvissutímar fyrir íslenska hagsmuni. Við stígum að sjálfsögðu varlega til jarðar því að áfram er mikilvægt að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Sú stefna ríkisstjórnarinnar endurspeglast að verulegu leyti í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ef litið er á heildaraukningu fjárheimilda til utanríkisráðuneytisins er það nokkuð villandi vegna þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir flutningi á 793 millj. kr. vegna varnarmála frá innanríkisráðuneyti til utanríkisráðuneytisins, þannig að ekki er um að ræða raunverulega aukin framlög varðandi þessa tölu heldur tilfærslu á heimild. Þetta er gert til að tryggja gagnsæi, þ.e. að fjárheimildin komi fram hjá því ráðuneyti sem ber ábyrgð á málaflokknum, þ.e. utanríkisráðuneytinu. Landhelgisgæslan annars vegar og ríkislögreglustjóri hins vegar munu áfram sinna framkvæmdinni. Að auki ákvað ríkisstjórnin að bæta 213 millj. kr. við málaflokkinn en rík áhersla hefur verið á að bandalagsríki NATO auki framlög sín til sameiginlegra varna bandalagsins. Við munum færa loftrýmisgæslu í fyrra horf og styðja þar meðal annars við þyrlubjörgunarþjónustu Landhelgisgæslu Íslands, fjölga borgaralegum sérfræðingum undir merkjum NATO og styðja við átak Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.

Eitt er nýtt sem kynnt er í frumvarpinu og það er að opna starfsstöð skjalasafns sendiskrifstofa á landsbyggðinni. Til að byrja með sinnir starfsstöðin frágangi skjala sem annars hefði verið sinnt af starfsfólki á fámennum sendiskrifstofum, sem hafa mátt þola mikinn niðurskurð á undanförnum árum. Þannig getur það frekar einbeitt sér að hagsmunum Íslands. Með nýrri tækni og pappírslausum skjalasöfnum er hægt að sinna sumum verkefnum fyrir sendiskrifstofur í rauninni hvar sem er. Við stefnum á að starfsstöðin taki yfir fleiri skjalaþjónustuverkefni fyrir sendiskrifstofur í framtíðinni. Þannig getum við hagrætt í rekstri sendiskrifstofa á sama tíma og við sköpum störf á landsbyggðinni.

Við sjáum nú færi til að opna aftur fastanefnd í Strassborg, en henni var lokað í aðgerðum ráðuneytisins í kjölfar bankahrunsins. Hjá Evrópuráðinu í Strassborg fer fram mikilvægt starf í mannréttindamálum og leita Íslendingar þangað finnist þeim á rétti sínum brotið. Ísland hefur ávallt lagt mikla áherslu á mannréttindi og því skýtur skökku við að Ísland sé langtímum saman eina aðildarríki mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur ekki fastan fulltrúa staðsettan í Strassborg. Við ætlum þó áfram að sýna ráðdeild og sinna þessu verkefni með algjörum lágmarkstilkostnaði.

Einnig gerum við ráð fyrir að vinna enn betur að hagsmunum Íslands innan EES-samningsins og styrkja aftur hagsmunastarfið hjá þeim sendiskrifstofum þar sem tækifærin eru hvað mest.

Þróunarsamvinna er einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Í kjölfar gjaldeyriskreppunnar drógust framlög Íslands saman. Í átaki okkar við að endurreisa ríkissjóð hefur þessi ríkisstjórn miðað við að halda jöfnu hlutfalli framlaga til þróunarsamvinnu af þjóðartekjum. Í þeim tilgangi mun framlagið aukast um rúmar 450 millj. kr. núna milli ára. Við leggjum áherslu á að halda áfram að byggja upp skilvirka þróunarsamvinnu þannig að framlög Íslands nýtist þeim þurfandi sem best. Sameining krafta sem kynnt var með frumvarpi um breytingar á lögum um þróunarsamvinnu er liður í því. Svo munum við auka hlutfallið á ný í framhaldinu, í það minnsta gerum við ráð fyrir því. Á næstunni mun ég leggja fram nýja tillögu til Alþingis um stefnu í þróunarmálum.

Ég tel að þetta fjárlagafrumvarp sé upphafið að frekari styrkingu utanríkisþjónustunnar, enda sérhverju fullvalda ríki mikilvægt að hafa öflugt tæki til að gæta hagsmuna sinna gagnvart umheiminum. Hvort sem um er að ræða alþjóðalög og samninga, viðskipti, þjónustu við borgarana, mannúðaraðstoð eða þróunarhjálp skiptir öllu að þekking og geta sé til staðar.

Frumvarpið ber þess merki að tækið sem höfum í dag til að gæta þessara hagsmuna verði eflt.