145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir alveg prýðilega greinargerð fyrir verkefnum og fjárveitingum til ráðuneytisins. Ef mætti draga ályktun af ræðu hæstv. ráðherra yrði hún sú að hæstv. ráðherra er með mjög einbeittum krafti að einbeita sér að því að byggja ráðuneytið upp á ný og það gerir hann einkum með því að fjölga sendiráðum og bæta við skjalasöfnum. Það eru hin nýju verkefni. Það sem ég sakna auðvitað í máli hæstv. ráðherra er umræða um það með hvaða hætti hann hefur barist fyrir og fengið fjárveitingar til málaflokks eins og norðurslóða. Það kom ekki fyrir í máli hæstv. ráðherra. Mér finnst það miður og er reyndar er stundum dálítið spældur yfir því hvað mér finnst þessi ríkisstjórn sýna þeim málaflokki lítinn áhuga, því að þar eru veruleg sóknarfæri.

Ég þakka hins vegar ráðherranum fyrir að bera þess gott og órækt vitni að í tíð Samfylkingarinnar í ríkisstjórn frá 2007–2013 var gætt mikils aðhalds, jafnvel fyrir fjármálahrunið. Hæstv. ráðherra gat þess hér að samkvæmt úttekt, sem ég hef nú ekki lesið en þótti forvitnilegt að heyra hjá hæstv. ráðherra, hefði kostnaður við sendiskrifstofur og aðalskrifstofu dregist saman um 30% á þeim tíma, en nú fagnar hæstv. ráðherra því að kominn sé tími til að snúa þeirri þróun við. Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að fagna með honum í þeim efnum, ég verð að segja alveg eins og er.

Varðandi sendiráðið í Strassborg leggst ég ekki gegn því. En það var ekki aðeins af sparnaðarsökum sem því var lokað, menn töldu að hægt væri að sinna því á annan hátt.

Það eru þróunarmálin sem ég ætla fyrst og fremst að ræða um hérna. Ég er, eins og hæstv. ráðherra veit, með blæðandi sár í hjarta yfir því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur farið gagnvart þeim málaflokki. Hæstv. ráðherra samþykkti hér árið 2011 með atkvæði sínu sérstaka áætlun sem átti að miða að því að auka framlögin til þróunarsamvinnu. Hæstv. ráðherra gerði það á grundvelli áætlunar um hagvöxt Íslands fram í tímann, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði og hefur staðist upp á punkt og prik. Ef við hefðum farið að því sem hæstv. ráðherra samþykkti værum við að veita 4,7 milljarða meira í þróunarsamvinnu. Við erum ríkasta þjóð í heimi eða meðal þeirra.

Hæstv. ráðherra hefur skipt um skoðun en eigi að síður lagði hann fram þingmál í fyrra sem fól í sér að miðað við þá áætlun, sem ekki var þá samþykkt, yrðum við núna að veita sem svaraði 0,23% af landsframleiðslu til þróunarmála. En það frumvarp sem hér liggur fyrir er einungis 0,21%. Munurinn er 500 milljónir og það munar um það.

DAC-ríkin í þróunarnefnd OECD leggja að meðaltali 0,30. Ef við gerðum slíkt hið sama værum við að leggja 2 milljörðum meira og það mundi duga til þess til dæmis að kenna jafn mörgum skólabörnum í Afríku að lesa og eru á Íslandi (Forseti hringir.) í skólum sem hafa þak yfir kennslustofurnar með kennsluefni og þar sem væru ekki yfir 100 hundrað krakkar í bekk. (Forseti hringir.) Þetta skiptir máli. Okkur ber að leggja af mörkum, sérstaklega á tímum þegar gengur svona vel hjá okkur.