145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þann góða skilning sem ég finn hjá þingmanninum varðandi verkefni og það hlutverk sem utanríkisþjónustan hefur. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sá er hér stendur hefur gjarnan viljað sjá hækkun til framlaga til þróunarsamvinnu meiri en raunin er. Það breytir því þó ekki að það eru tæpar 500 millj. kr. að bætast við þróunarliðina hjá okkur. Það kemur til vegna þess að tekjur ríkisins og þjóðartekjur eru hærri og það gengur miklu betur. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að það sé enn og aftur sýn um það að við getum bætt í á næstu árum, hækkað þá prósentu sem hv. þingmaður nefnir réttilega. Auðvitað finnst mér það hljóta að vera markmið okkar að ná innan tiltölulega skamms tíma því meðaltali sem OECD-ríkin hafa, 0,30. Það er hins vegar þannig að við erum enn að forgangsraða þeim fjármunum sem við höfum. Ég tel þó að við eigum að geta á næstu árum bætt í þróunarsamvinnu eða þróunarliðina okkar og í þeirri áætlun sem ég nefndi að ég muni vonandi flytja síðar í haust verður gefinn tónninn hvað varðar þessa ríkisstjórn er kemur að framlögum á næstu árum.

Ég vil hins vegar strax taka fram að ég sé ekki fyrir mér að sú aukning sem við munum sjá verði í þeim takti sem var samþykkt hér líklega 2013 eða hvenær það var sem þáverandi ríkisstjórn tilkynnti mjög hraða aukningu í þennan málaflokk. Ég held að raunsærra sé að auka þetta jafnt og þétt og setja okkur það markmið fyrst að ná meðaltali OECD-ríkjanna og síðan að ná upp í markmið Sameinuðu þjóðanna sem er 0,7%.

En ég deili þeirri skoðun með þingmanninum að þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Við eigum að láta meira til hans rakna, enda erum við svo sannarlega rík þjóð.