145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er kannski ofmælt hjá hæstv. ráðherra að tala um þá stefnu sem fyrri ríkisstjórn lagði fram. Vissulega lagði sú ríkisstjórn og ég fyrir hennar hönd fram ákveðna stefnu en hún var ekki samþykkt á Alþingi. Alþingi, að tillögu utanríkismálanefndar þar sem hæstv. ráðherra sat, framhlóð hana, gaf í og vildi meira á þessu ári til dæmis en ég, þannig að sú tala sem ég var að nefna áðan var að tillögu hæstv. ráðherra sem þá var í utanríkismálanefnd. Hæstv. ráðherra sýndi það þá mörgum sinnum að í honum slær heitt og öflugt hjarta og hann er fylginn sér þegar hann fer á skriðinn með málum sem hann ber fyrir brjósti. Ég dreg ekki í efa að hæstv. ráðherra vilji gjarnan sjá meira í þennan málaflokk en það sem ég sakna er að hæstv. ráðherra noti burði sína og stöðu til að slást fyrir málinu. Mér finnst að það reki enn frekari nauður til þess á vorum tímum þegar ljóst er að Ísland er komið upp úr öldudölum, allar áætlanirnar sem lágu til grundvallar hinni fyrri tillögu, sem hæstv. ráðherra og aðrir þingmenn gáfu í, hafa staðist. Mér finnst svolítið hryggilegt að hæstv. ráðherra skuli í reynd láta bjóða sér þetta. Í fyrra leggur hann síðan fram aðra stefnu og hann nær henni ekki einu sinni fram. Bíddu, við hvern þarf þingið að tala? Hverjir taka ákvarðanirnar? Er það ekki hæstv. ráðherra, er það eftir allt saman rétt sem ég gat mér til um á síðasta ári, að það væri andstaða hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, sem réði?

Hér er um peninga að ræða sem ég tel að okkur beri siðferðileg skylda til að láta af höndum rakna. Munurinn á því sem hæstv. ráðherra kom með í fyrra og hlutfallinu í dag — hvað gæti hann gert? Það er ígildi heils spítala í Afríku, spítalinn sem við afhentum (Forseti hringir.) 2012 kostar nákvæmlega það sem vantar upp á miðað við loforð ráðherrans í fyrra.