145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það er rétt að halda því til haga að af tæplega 13 milljörðum af heildarfjárveitingum til utanríkismála fara 6,4 milljarðar til þróunarmála, í þróunarmálaflokka. Vegna aukinna þjóðartekna fara um 500 millj. kr. meira í það á komandi ári miðað við fjárlögin eins og þau líta út í dag. Við erum samt því miður eftirbátar flestra viðmiðunarlanda okkar þegar kemur að þessum málum.

Hv. þingmaður spyr hvort verið sé að veita bandaríska hernum aðstöðu í Keflavík á nýjan leik. Frá 2006 hefur NATO og Bandaríkjamenn alltaf haft aðstöðu í Keflavík, það er ekki verið að veita neitt nýtt, það er ekkert nýtt að gerast þar. Það er hins vegar áhugi hjá Bandaríkjamönnum fyrir því að kanna hvort það sé þörf þeirra megin, að vera oftar með einhver tæki og tól eða viðveru í Keflavík. Það er ekki að okkar frumkvæði. Þeir fjármunir sem lagðir eru til, 213 millj. kr., til aukningar á varnarmálaliðnum eru fyrst og fremst peningar sem notaðir eru til borgaralegra verkefna, til að senda fólk inn í NATO til að sinna borgaralegum verkefnum, til að styrkja móttöku á flugsveitum út af loftrýmisgæslu, það nýtist sem sagt mestallt hér heima.

Það eru tæplega 800 millj. kr. sem færast frá innanríkisráðuneyti til utanríkisráðuneytis vegna varnartengdra verkefna. Það eru ekki nýir peningar, það er bara tilfærsla á aurum, og síðan er það samkvæmt samningi við Landhelgisgæslu og ríkislögreglustjóra sem þeir fjármunir fara til þeirra stofnana.