145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Við veitum umtalsverða fjármuni til samstarfs við alþjóðastofnanir eins og hv. þingmaður nefndi hér, og vil ég þakka þingmanninum fyrir seinni ræðuna. Við erum líka að setja, eins og kom fram í máli mínu áðan og kemur fram í frumvarpinu, fjármuni í borgaraleg verkefni á vegum NATO. Það er okkar framlag, við erum ekki með hertæki og tól sem við erum að leggja af mörkum eins og önnur ríki, þetta er okkar framlag til NATO.

21 milljón af þessum 213 fer til dæmis í verkefni í Úkraínu vegna afgreiðslu tillögu öryggisráðsins nr. 1325, um konur, frið og öryggi, 75 milljónir eru áætlaðar hérna heima í gistiríkjastuðning við flugsveitir þegar þær koma hingað í loftrýmisgæsluna.

Ég er ósammála hv. þingmanni um að þá fjármuni sem eru fluttir frá innanríkisráðuneyti til utanríkisráðuneytis vegna varnarmála eigi að nýta í eitthvað annað. Þessir fjármunir eru meðal annars nýttir til þess að standa straum af þeim kostnaði sem við höfum við ratsjárstöðina í Keflavík sem er ekki eingöngu mikilvæg fyrir varnartengd verkefni; líka fyrir samskipti okkar við vini okkar í Noregi þegar kemur að því að fylgjast með ferðum annarra skipa og þess háttar þannig að þessir fjármunir nýtast á margvíslegan hátt.

Okkar verkefni innan NATO er meðal annars að reka þessa starfsemi sem er í Keflavík. Hún kostar sitt. Þeim peningum er að mínu mati mjög vel varið. Í raun má segja að við höfum gert mjög vel miðað við þá litlu fjármuni sem settir eru í þessi verkefni við að halda Keflavík gangandi og þar ætla ég að leyfa mér að þakka Landhelgisgæslu Íslands fyrir að hafa sinnt því afar vel.

Við getum alltaf talað um að peningar eigi að fara á þennan stað en ekki hinn en í hlutfallinu, að vera með 6,4 milljarða í þróunarmál, vera með rúmlega 1 milljarð í varnartengd verkefni, (Forseti hringir.) þá er það eitthvað sem skýrir sig sjálft. En ég er sammála því að við eigum að auka í þróunarverkefnin, við þurfum hins vegar ekki að taka það af þarna.