145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ólíkt þeim ræðumanni sem hér síðast beindi spurningu til hæstv. utanríkisráðherra vildi ég fagna auknum fjárveitingum til öryggis- og varnarmála. Ég held að þeir atburðir sem eiga sér stað í heiminum, þar á meðal í okkar næsta nágrenni, undirstriki þörfina á öflugri þátttöku okkar í samstarfi vestrænna þjóða á sviði öryggis- og varnarmála, bæði á vettvangi NATO og eins með tvíhliða samstarfi við Bandaríkin. Ég vildi taka fram að ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að verja fjármunum með þessum hætti og held að við komumst ekki hjá því í ljósi þess hvernig ástand hefur breyst á örfáum missirum í þeim efnum. Þar er ég bæði að vísa til aukinnar ólgu sem tengist ófriðnum í Miðausturlöndum og Norður-Afríku en eins þeim atburðum sem hafa orðið í austanverðri Evrópu og tengjast afskiptum Rússa af málefnum Úkraínu. Því tengist auðvitað aukin hernaðarleg uppbygging af hálfu Rússa sem orðið hefur vart við, bæði með stórauknum heræfingum á Eystrasaltssvæðinu og norðurslóðum, uppbyggingu hernaðarlegra mannvirkja og herstöðva af hálfu Rússa á norðurslóðum og fleira þess háttar sem gerir að verkum að við þurfum að efla þátttöku okkar í varnarsamstarfi á þessu sviði en ekki draga úr henni. Ég tek undir þá stefnumörkun sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar.

Ég vildi líka nefna annan þátt sem ég styð eindregið í þeim tillögum sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu. Það er gamall kunningi, það er umræðan um eflingu sendiskrifstofu okkar í Brussel. Við höfum á undanförnum árum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hér í þessum sal rætt um að það væri mikilvægt að efla hagsmunagæslu af hálfu Íslands í tengslum við EES-samninginn, auka möguleika okkar á því að fylgjast með löggjöf sem er í smíðum og undirbúningi af hálfu Evrópusambandsins og kemur til með að hafa áhrif hér á landi gegnum EES-samninginn. Meðal þess sem við þurfum að gera í því sambandi er að efla skrifstofuna í Brussel með það að markmiði að við höfum betra tækifæri til þess að gæta hagsmuna Íslands í sambandi við þá löggjöf sem er í smíðum þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því sem orðnum hlut miklu síðar í ferlinu.