145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott samstarf í utanríkismálanefnd.

Varðandi varnarmálin er það vitanlega augljóst að við berum ákveðnar skyldur þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Við erum aðilar að NATO-samstarfinu og við erum með tvíhliða varnarsamning frá 1951 við Bandaríkjamenn. Þær skyldur þurfum við að uppfylla og það er það sem við erum að sjálfsögðu að gera.

Það er breytt umhverfi í heiminum, það er alveg ljóst. Við förum ekkert varhluta af því í umræðu og hvað við sjáum hér heima fyrir. Það er aukin umferð í kringum Ísland, hvort sem það er á sjó eða í lofti og við bregðumst við eins og við gerum í dag varðandi það.

Þegar kemur að því að styrkja viðveru okkar eða sendiráð okkar í Brussel þá er það gríðarlega mikilvægt því að miklir hagsmunir eru undir, þ.e. að við getum stöðugt fylgst með og verið snemma á ferðinni og gegnumlýst þær hugmyndir og tillögur sem koma frá Evrópusambandinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur til framtíðar litið að geta styrkt sendiráð okkar og skrifstofur enn frekar, þetta eru útverðir Íslands þegar kemur að því að gæta hagsmuna landsins á erlendri grundu. Það er mjög mikilvægt að við séum undir þetta búin og höfum tæki og tól og mannskap til að fást við þau verkefni sem koma upp.

Ég hef þá trú að verkefnunum fari ekkert fækkandi á næstu árum heldur munu þau einhvern veginn breytast og þess vegna verða þyngri og fjölbreyttari.