145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er rétt að ég sagði að ég vildi sjá framlög til þróunarmála hækka jafnt og þétt, eða hægt og rólega, til að tryggja að það gerðist. Ég leyfi mér að vona að innan ekki of langs tíma, án þess að skilgreina hann endilega, munum við ná meðaltali OECD-ríkjanna sem er 0,3%.

Markmiðið er að sjálfsögðu enn það að ná viðmiði Sameinuðu þjóðanna sem er 0,7%, það er hins vegar lengra fram í tímann.

Eins og ég sagði setjum við í dag 6,4 milljarða í þróunarmál. Það eru töluvert miklir peningar en engu að síður er mikil vöntun þar og þörf.

Varðandi aðalskrifstofuna er rétt að þar er verið að bæta við 18,2 millj. kr. Þingmaðurinn spyr hvort nóg sé að gert. Það er gríðarlega mikið álag á starfsmönnum utanríkisráðuneytisins. Eins og komið hefur fram er búið að skera mjög mikið niður og jafnvel meira þar en annars staðar. Það var að sjálfsögðu gert á sínum tíma til að spara gjaldeyri og aðra hluti því að rekstur okkar er eðli málsins samkvæmt mikill í erlendum gjaldeyri.

Það er gott að geta sagt frá því að utanríkisráðuneytið er gríðarlega vel rekið, vel er haldið utan um fjármuni þar og minnist ég þess að formaður fjárlaganefndar nefndi það sérstaklega einhvers staðar hversu vel þetta ráðuneyti hefur staðið sig þegar kemur að rekstri.

Við hvikum hins vegar ekki neitt frá því að sýna áfram aðhald og velta við hverri krónu. Þessi 18,2 millj. kr. hækkun er ekki mikil en hún hjálpar sannarlega til. Eins og ég hef áður sagt þyrftum við að geta bætt meira í til þess að ná þeim styrk sem við höfðum fyrir hrun í að gæta þeirra hagsmuna sem okkur ber að gæta. Hið góða starfsfólk í ráðuneytinu hefur (Forseti hringir.) unnið sólarhringum saman til að láta þau verkefni ekki líða fyrir fjármagnsskort.