145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mjög jákvætt að þessi ráðherranefnd var sett á fót og ljóst að eitthvað í þessum fjárlagalið mun taka breytingum út frá niðurstöðum nefndarinnar; mér skilst að einhvers konar aðgerðaáætlun muni liggja fyrir á næstu dögum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafi heimild til að lýsa þeirri aðgerðaáætlun fyrir fram en ef hann má það þá kalla ég eftir því.

Nú hefur mikið verið fjallað um málefni hælisleitenda og flóttamanna og það er málaflokkur sem er mér að sjálfsögðu ofarlega í huga. En það er annar málaflokkur sem er mér ekki síður mikilvægur og lýtur að einni af orsökum þess að fólk þarf oft að flýja heimkynni sín, og er ég þá að tala um umhverfis- og loftslagsmál.

Nú í desember verður haldin loftslagsráðstefna sem margir segja að verði mikilvægasta ráðstefna mannkyns. Ég hegg eftir því að ekki er mikið fjallað um þetta í fjárlagafrumvarpinu, ég sé það að minnsta kosta ekki, það er reyndar frekar mikið torf að lesa í gegnum þessi fjárlög, framsetningin á þeim er ekki til fyrirmyndar almennt séð. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort gert sé ráð fyrir alvöruþátttöku okkar í þessari mikilvægu ráðstefnu og hvort gert sé ráð fyrir einhverri eftirfylgni er lýtur að henni. Nú erum við að gera fjárlögin og margt endar inni á fjáraukalögum. Ég spyr hvort gert sé ráð fyrir að við þurfum að fylgja eftir einhverjum loforðum, t.d. um meiri alþjóðasamvinnu, í þessum málaflokki.

Ég tók eftir því að framlög til Norðurskautsráðs eru lækkuð en aftur á móti er aukið í við aðrar stofnanir og ég veit um einhverja samninga og annað sem kalla á auknar fjárveitingar, t.d. eins og vegna OECD og WTO. En mig langaði að spyrja ráðherrann, í tengslum við það að ekki er fjallað mikið um alla þessa alþjóðasamninga og skuldbindingar sem við eigum hlut að og oft víkja þau mál og umræður um þau fyrir öðrum málum hér á þinginu, hvort hann væri ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að utanríkismál fengju aðeins meira vægi innan þingsins.