145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og spurningar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum eftirbátar flestra okkar samanburðarþjóða eða nágranna þegar kemur að fjárveitingum til þróunarmála. Staðan er þannig í dag að sum þessara ríkja eru að skera niður aðstoð einfaldlega vegna þeirrar fjárhagsstöðu sem er víða í Evrópu. Þó að þessi ríki séu að skera niður þá eru þau samt langt umfram Ísland þegar kemur að þessu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við setjum í dag í kringum 6,4 milljarða kr. í þróunarhjálp. Það er um helmingur af þeim fjárveitingum sem utanríkisráðuneytið er með í þessum fjárlögum. Það breytir því ekki að þetta er, eins og ég sagði áðan, frekar lítið í samanburði við önnur ríki.

Þetta er óbreytt frá fyrra ári, það er rétt. Tillagan, sem lögð var fram í vor, hljóðaði upp á 0,23%, það er líka rétt. Það hefði vitanlega verið mjög gott ef sú tillaga hefði verið afgreidd áður en við fórum í þessi fjárlög en því miður náðist það ekki. Það hefði styrkt okkur í þeirri umræðu sem fram undan er varðandi fjárlögin. Ég geri mér ákveðnar vonir um að þetta kunni að taka breytingum í meðförum þingsins. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég geri mér von um það. Mér finnst vera meiri skilningur núna en var fyrir ári meðal þingmanna á því að auka þurfi þróunaraðstoð. Menn sjá með eigin augum hversu brýn þörfin er. Það er líka ljóst að ef við bregðumst við, eins og við ætlum okkur að gera, þeim flóttamannavanda sem við sjáum núna, þá munum við þurfa að hækka þennan lið því að töluvert miklir fjármunir fara þarna í gegn. Ég held að við séum á svipaðri skoðun, ég og hv. þingmaður, þegar kemur að þessu.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir því að fá aukna fjármuni þarna inn. En því miður var ekki hægt að undanskilja þennan lið, sem inniheldur töluvert háar fjárhæðir, þeim sparnaði og niðurskurði, hvað sem við köllum það, sem við þurftum að grípa til.