145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, það vekur athygli mína þegar hæstv. ráðherra segir að hann hefði gjarnan viljað að tillaga hans hefði verið samþykkt, að hún hefði styrkt hann í baráttunni fyrir fjármunum. Auðvitað er barist um fjármuni, ég skil það. Það er ávallt þannig á vettvangi ríkisstjórna. Ég skil það svo að hæstv. ráðherra hafi þá ekki notið nægjanlegs skilnings í hæstv. ríkisstjórn þegar kom að því að skipta fjármunum.

Væntanlega var búið að samþykkja þessi markmið í ríkisstjórn, tillaga hæstv. ráðherra hefði ekki verið lögð fram í sumar nema hún hefði áður verið samþykkt í ríkisstjórn. Ég skil það þá þannig að menn hafi ákveðið að hlaupast undan merkjum í ríkisstjórninni og ekki viljað standa við stóru orðin sem þeir höfðu væntanlega áður sagt. Ég skil þetta þannig að menn hafi hlaupið frá fyrri markmiðum því að tillagan hefði ekki verið lögð fram nema í umboði allrar ríkisstjórnarinnar.

Ég stend að sjálfsögðu með hæstv. ráðherra í því, ef einhverjar vonir eru til þess, að auka framlög til þessa málaflokks á meðan á meðferð fjárlaga stendur hér í þinginu. Það er svigrúm fyrir hendi. Fólk fylgist með fréttum og það er nauðsynlegt að ræða orsakir flóttamannavandans, hvernig við getum ráðist að orsökum vandans með því að efla framlög til þróunarsamvinnu og tryggja að þau nýtist vel. Ég hef þá trú að framlög Íslands til þróunarsamvinnu hafi hingað til nýst vel, að þeim hafi verið fylgt vel eftir, þau hafi verið metin eins og við höfum fengið að kynnast í hv. utanríkismálanefnd. Ég vonast til þess að þegar fjárlögin verða samþykkt verði talan miklu hærri og að hún verði að minnsta kosti sú sem hæstv. ráðherra lagði til í sumar.

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann að nýju leggja fram þessa tillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á haustþingi? Munum við ná að samþykkja hana hér fyrir jól þannig að við getum jafnvel samþykkt metnaðarfull markmið sem skila sér þá inn áður en við afgreiðum hana?