145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan. Vitanlega hefði verið styrkur í því, þegar verið er að útdeila fjármunum í vinnu við fjárlagafrumvarp næsta árs, að hafa samþykkt Alþingis fyrir slíkri áætlun, það sér hver einasti maður. Það er enginn að hlaupast undan merkjum þó að fjármunir raðist með öðrum hætti í fjárlagagerðinni. Áherslurnar eru velferðarmálin, við sjáum það, það er heilbrigðiskerfið, það eru húsnæðismálin, það er þessi velferðarpakki, þessi stóru mál, sem áhersla er lögð á í fjárlagagerðinni.

En engu að síður er það rétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðið svigrúm til breytinga og ég vonast til að eitthvað gerist í því.

Já, ég stefni að því að leggja fram áætlun nú í haust. Vonandi tekst það, vonandi næ ég að leggja hana fram í haust. Að sjálfsögðu væri best að hún yrði kláruð fyrir áramót en það fer bara eftir því hvenær ég kemst fram með málið og hvort tími sé til þess. Alla vega færist það þá yfir á þingveturinn. En ég treysti mér ekki til að segja nákvæmlega hvernig þær tölur verða, sem verða í þeirri áætlun en þær verða í það minnsta þannig að við gerum ráð fyrir aukningu ár frá ári í þróunarsamvinnu.