145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ræðu og spurningarnar. Það er alveg rétt að öryggis- og varnarmálin skipta okkur miklu. Við erum og viljum vera herlaus þjóð áfram en vera í samstarfi við aðra þegar kemur að þeim málaflokki.

Það eru vissulega möguleikar á að nýta þann búnað, við skulum segja fasteignir og annað sem er í Keflavík til að byggja meðal annars upp leitar- og björgunarmiðstöð. Það eru líka sterkir innviðir nánast úti um allt land til að taka þátt í slíku. Það verkefni er í ákveðnum farvegi. Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins vinnur núna skýrslu og greinargerð varðandi það mál og skilar af sér á haustmánuðum, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvenær, og í framhaldi af því tökum við næstu skref. Það er áhugi hjá nágrannaþjóðum okkar og bandamönnum að sjá hvað kemur út úr þeirri greiningu okkar, hvað fýsilegt er í því.

Staðsetning Íslands þegar kemur að leit og björgun er mjög mikilvæg. Við þekkjum þetta, það er allt Norður-Atlantshaf í rauninni og svo teygjum við okkur fram í Norður-Íshafið, og þessi norðurslóðamál öll sömul þegar kemur að til dæmis þeim möguleika, sem gæti orðið, að farþegaskip yrðu í hættu. Allt þetta skiptir máli, samstarfið við Dani er mikið í dag o.s.frv. Við þurfum að teikna þetta upp og það er það sem verið er að gera í dag.

Varðandi umhverfismálin er það alveg hárrétt að töluverð skörun er í því eins og svo mörgum öðrum málum þegar kemur að utanríkisþjónustunni og slíku. Við eigum mjög gott samstarf og samráð okkar á milli, ráðuneytin sem koma að þessu, umhverfisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið líka. Við höldum að sjálfsögðu því samstarfi áfram. Þarna skiptir máli að allir séu í sama bátnum þegar róið er í sömu átt. Það erum við sannarlega að gera og auðvitað bera fagráðuneytin gríðarlega mikla ábyrgð þegar kemur að þessu faglega, en utanríkisráðuneytið kemur svo að þessu þegar farið er í samningaviðræður, útfærslur og þess háttar.