145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi 2016 eru heildargjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir árið um 13,6 milljarðar kr. Gjöld umfram tekjur eru 10,5 milljarðar kr. og þar af eru 4,8 milljarðar kr. innheimtir af mörkuðum ríkistekjum en mismunurinn fjármagnaður með beinu ríkisframlagi.

Í frumvarpinu aukast útgjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um 78,5 millj. kr. á milli ára á föstu verðlagi eða sem svarar til um 0,8%. Að teknu tilliti til áhrifa almennra launa- og verðlagsbreytinga hækka útgjöldin um 399,2 millj. kr. eða sem nemur 4%. Áætlað er að aðhaldsaðgerðir sem ráðuneytið hefur útfært í frumvarpinu lækki útgjöld sem nemur 0,5% af veltu ráðuneytisins í fjárlögum ársins 2015. Útgjaldasvigrúmi hefur verið forgangsraðað til einstakra verkefna og nú verður gerð grein fyrir þeim helstu.

Settar hafa verið aukalega 68,5 millj. kr. í verkefni sem tengjast náttúruvernd sem og vöktun. Meðal annars er um að ræða aukna vöktun lykilþátta í íslenskri náttúru en samkomulag náðist á Alþingi síðastliðið vor um að lagt yrði fram frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum á þessu þingi með gildistöku 15. nóvember næstkomandi. Markvisst er unnið að stefnumörkun og aðgerðum til að tryggja að aukin umferð ferðamanna komi ekki niður á náttúrulegum og menningarlegum verðmætum landsins. Áhersla er nú lögð á gerð verndar- og stjórnaráætlana á friðlýstum svæðum. Í þeim er fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir landvörslu og landnýtingu, svo sem aðgengi ferðamanna að svæðum, stígagerð og uppbyggingu þjónustumannvirkja. Þessu tengt og til að stuðla að frekari verndun náttúru á friðlýstum svæðum er einnig brýnt að auka fjármagn til landvörslu hjá Vatnajökulsþjóðgarði og sjáum við það gert í þessu frumvarpi.

Þá verður frumvarp um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum endurflutt á næstu dögum. Má segja að góð sátt hafi náðst um það í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta þingi. Samkvæmt frumvarpinu mótar verkefnisstjórn áætlun um uppbyggingu svo að fjármunir nýtist sem best og þarf forgangsröðun að byggjast á mati á landinu í heild og í einstökum landshlutum þar sem verkefnum verður forgangsraðað og framkvæmd þeirra útfærð nánar.

Þá hafa fyrstu skrefin verið stigin til eflingar skógrækt og landgræðslu á ný sem hjálpar okkur að vernda umhverfið og mæta áskorunum í loftslagsmálum, endurheimta landgæði, efla byggð og byggja upp nýja auðlind. Um er að ræða 50 millj. kr. til fjölbreyttra verkefna sem fara beint í framkvæmdir til viðbótar við það sem nú er.

Jafnframt má geta þess að stefnumótandi byggðaáætlun 2014–2017 setur einnig fram markmið um eflingu stuðnings við skógrækt á bújörðum með áherslu á viðarframleiðslu, kolefnisbindingu, aukin landgæði, betri búsetuskilyrði og atvinnusköpun. Það er á ábyrgð okkar allra að sporna við súrnun sjávar og þarf Ísland að vera í fremstu röð meðal ríkja heims í baráttunni fyrir hreinu hafi. Því verður samstarf ráðuneyta á verkefnum sem tengjast málefnum hafsins aukið. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er gert ráð fyrir 51 millj. kr. fjárheimild til eflingar málaflokknum. Meðal annars er gert ráð fyrir auknu fjármagni í vöktun og löngu tímabærri vinnu við fullgildingu á ákvæðum alþjóðlegra samþykkta varðandi mengun hafsins.

Sívaxandi eftirspurn er eftir aukinni umhverfis- og öryggisvöktun á náttúru, loftslagi og hafi. Ísland gerðist aðili að EUMETSAT, stofnun evrópskra veðurstofa fyrir tveimur árum síðan en með henni fæst aðgangur að gervitunglagögnum til notkunar við veðurspár og loftslagsathuganir. Sem dæmi um upplýsingar má nefna mat á útbreiðslu ösku frá eldfjöllum, ölduhæð á höfum og dreifingu hafíss. Má segja að slíkar upplýsingar stuðli að bættu öryggi fyrir vaxandi straum ferðamanna til landsins.

Að lokum langar mig að nefna að árið 2015 er tímamótaár á heimsvísu vegna alþjóðlegrar stefnumörkunar í loftslagsmálum. Umhverfisráðuneytið sér um framkvæmd loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og um mótun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Í ráðuneytinu er unnið ötullega að greiningu á kostum Íslands og möguleikum til að draga úr losun til að ná losunarmarkmiðum ársins 2030.