145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra svörin. Ég harma að ekki sé getið sérstaklega um aðgerðaáætlun stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að ekki sé sett myndarlegt fjárframlag inn í það verkefni. Það er stærsta áskorun samtímans í stjórnmálum. Við erum að renna út á tíma til að hafa áhrif til minnkunar þess skaða sem breytingar á loftslagi munu hafa fyrir íbúa jarðarinnar og annað lífríki á jörðinni á næstu árum og áratugum og þess vegna verða stjórnvöld að koma inn með miklu meira afgerandi hætti.

Það er rétt að hæstv. utanríkisráðherra fór yfir þessi mál, en hann er að sjálfsögðu bara í þessum alþjóðlegu samskiptum, það eru aðgerðirnar hér heima fyrir sem verður að setja miklu meira púður í.

Varðandi friðlýsingarnar munum við sem erum hlynnt því að standa vörð um íslenska náttúru, hjálpa hæstv. ráðherra við að fá inn aukið fjármagn í þær. Lengi hefur skort fé inn í málaflokkinn. Það hefur dregist á langinn varðandi mikilvæg svæði auk þess sem það virðast vera óleystar pólitískar deilur eins og varðandi Þjórsárver og slíkt. Hægt er að hefjast handa við friðlýsingu. Við erum með nægileg gögn í höndunum þó að auðvitað þurfi að halda áfram að vinna að áætlun. En það þarf meira en fjármuni í áætlunina, það þarf líka fé í friðlýsingaraðgerðirnar.