145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt hér áðan. Ég var ekki að spyrja um núverandi rammaáætlun, þ.e. rammaáætlun 3. Ég skil vel að hæstv. ráðherra þurfi að bíða eftir niðurstöðu rammaáætlunar 3 sem þarf væntanlega samkvæmt tillögu frá ráðherranum að koma til afgreiðslu Alþingis samkvæmt lögum um vernd og nýtingu, það sem við köllum í daglegu tali rammaáætlunarlögin. Ég er að spyrja um friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar 2 sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013. Ég er að spyrja um þær friðlýsingar, virðulegi forseti, sem ráðherra ber að sjá til að fari fram á grundvelli samþykktrar rammaáætlunar frá 2013 sem byggir á samþykktum lögum frá Alþingi. Það er það sem ég er að spyrja um.

Hinu vil ég víkja að í fyrsta lagi, af því að hæstv. ráðherra ræðir hér aukningu í landvörslu, þá vil ég spyrja hvort ráðherrann telji að nægilega sé að gert að því er varðar landvörsluna af því að við vitum að víða um land hefur landvarslan ekki verið nægileg og víða um land höfum við verið með landsvæði sem hafa búið við mikinn ágang en ekki nægilega vörslu og vöktun. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hún telji klárt að við séum nægilega vel í stakk búin til að sinna þessu svo vel sé á árinu 2016 og hvort því sé nægilega skýrt fyrir komið í frumvarpinu.

Að lokum vil ég spyrja um Vistvæn innkaup sem er verkefni sem hefur verið í gangi allt frá árinu 2009. Ég hjó eftir því í fjárlagafrumvarpinu og í texta sem fjallar um opinber innkaup, undir kafla fjármálaráðuneytisins, að þar er ekkert fjallað um umhverfissjónarmið. Þar er ekkert fjallað um Vistvæn innkaup og ekki vikið einu orði að umhverfissjónarmiðum við opinber innkaup. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hver staðan væri á verkefninu Vistvæn innkaup og samstarfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við fjármála- og efnahagsráðuneytið í ljósi þess verkefnis.