145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur, það er gott að eiga stuðninginn. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru gríðarlega mörg og mikilvæg mál sem liggja nú fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem koma frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Samið var um að við mundum reyna að klára náttúruverndarfrumvarpið. Það fór í gegnum ríkisstjórn í morgun til að það mundi koma sem fyrst til þingsins. Þá mun ég mæta á nefndarfund á mánudagsmorgun til að fara yfir málefni ráðuneytisins. Fyrir utan náttúruverndina er ekki síst fjallað um skipulag, utanumhald og að búa á til ramma til að vinna betur varðandi innviðauppbygginguna, eins og þingmaðurinn gat um, sem er afskaplega mikilvægt til að geta kortlagt hvernig við getum brugðist við og kortlagt menningarminjar okkar og náttúru. En einnig er fjallað um landsskipulagsstefnu, þannig að utanumhald einkennir nokkuð málefni ráðuneytisins. Á vordögum mun ég leggja fram frumvarp um skipulag hafs og stranda, sem er líka nýtt, svo maður líti á málin heildrænt.

Ég tel mjög gott að hv. þingmaður hugleiði málefni hafsins en vil samt segja að verið er að vinna að þeim; fræðimenn og nefnd eru starfandi innan umhverfisráðuneytis og utanríkismálaráðuneytis og víðar. Ég hlakka til að sjá tillögur þeirrar nefndar.