145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og get tekið undir það sem hún sagði hér. Það er þá spurning hvort hæstv. ráðherra hefur tíma til að koma aðeins inn á loftslagsráðstefnuna. Mig langaði líka að nefna eitt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir talaði um, þ.e. vistvæn innkaup, það virðist vera mjög mikilvægt að ríkið gangi þar á undan með góðu fordæmi. Ég held að fyrsta stefnan hafi verið samin þegar Siv Friðleifsdóttir var umhverfisráðherra. Ég man alla vega eftir að hafa lesið stefnu um vistvæn innkaup þá sem illa gekk að framfylgja. Ráðherra getur sett fram ákveðna stefnu en síðan eru það stofnanirnar sem kaupa inn sem þurfa að framfylgja henni. Það finnst mér að ætti að taka mjög föstum tökum og nota svansmerktar vörur og vottaða umhverfisstaðla alls staðar þar sem það er hægt og þar sem það á við varðandi þjónustu og vörur. Í einhverjum tilfellum getur það kannski verið það dýrt að það sé varla réttlætanlegt en þá mætti búa til eitthvert þak þar. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Varðandi það sem snýr að ráðherrunum og ríkisstjórninni hef ég aðeins talað um bílaflotann sem mér finnst að gæti verið umhverfisvænni, þ.e. bílafloti allra ráðherranna. Um leið og menn eru í þeirri stöðu að geta keypt bíla fyrir margar milljónir er hægt að velja mjög fína rafbíla. Þeir eru enn þá dýrir og ég skil að það geti verið átak fyrir venjulegt fólk að kaupa þá en það sparar á móti í eldsneyti eða dregur úr eldsneytiskostnaði því að hann verður mjög lítill eða enginn. Ég skil hins vegar ekki af hverju ráðherrabílarnir eru ekki allir rafbílar eða metanbílar eða bílar sem nota með einhverjum hætti endurnýjanlega orku. Það er stóra umhverfismálið, að draga úr brennslu á jarðefnaeldsneyti.