145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir, ég sé að ég hef stuðningsmann í að fá mér nýjan rafbíl. Ég er búin að svara þessu varðandi vistvænu innkaupin, ég ætla virkilega að kynna mér það á allra næstu dögum hvernig það mál stendur. Varðandi vistvæn innkaup finnst mér náttúrlega meginpunkturinn vera að reyna að draga sem mest úr plastnotkun. Við höfum talað mikið um hafið og vitum hvað plastið gerir þeim sem synda um í hafinu, bæði fuglum og fiskum, eins og nú er að koma í ljós.

Varðandi bílaflotann, svo ég komi aðeins að honum aftur, er ríkur skilningur hjá ríkisstjórn Íslands að reyna að finna leiðir til þess að greiða niður kostnað við rafbíla. Ég held að það muni líta dagsins ljós, jafnvel núna á haustdögum, hvað við getum gert í því.

Varðandi París er búið að vinna að því máli hörðum höndum allt þetta ár og lengur. Það er á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Skrifstofustjóri þar fer fyrir þeirri vinnu sem þó er unnin í samvinnu við fleiri ráðuneyti, eins og ég hef komið inn á. Við erum að móta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Við erum í samfloti með Evrópuríkjunum og settum okkur það markmið að minnka losun um 40% fyrir 2030. Við erum innan vébanda Evrópusambandsríkjanna ásamt Noregi.