145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög góða og upplýsandi umræðu um þetta fjárlagafrumvarp. Ég held að það sé búið að fara yfir það helsta sem brann á mér en það er eitt sem hefur ekki verið rætt og það er aðallega hvort hæstv. umhverfisráðherra sé eitthvað að reyna að stuðla að fræðsluefni fyrir ferðamenn. Skemmst er frá því að segja að einhverjir túristar voru að rífa upp mosa á Þingvöllum til að nota sem einangrun í tjöldunum sínum. Það virðist vera nauðsynlegt að ferðamenn hafi aðgang að einhverjum bæklingi eða einhverju sem útskýrir hversu viðkvæm náttúra okkar er.

Nú hef ég farið aðeins í gegnum umhverfisverndarkaflann í fjárlagafrumvarpinu og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé verið að eyða í eitthvað til að fræða fólkið sem kemur hingað til landsins, á ýmsum tungumálum, þegar við því er tekið á flugstöðinni og víðar þannig að það sé útskýrt að ekki sé hægt að ganga um landið jafn hart og tíðkast hefur eða vaninn er annars staðar.