145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:49]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil örlítið blanda mér í umræðuna, ekki lengi þó. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa gert grein fyrir útgjöldum í sínu ráðuneyti. Mig langar að fagna sérstaklega þrem verkefnum, þau tengja saman atvinnu- og umhverfisþætti.

Fyrir það fyrsta vil ég nefna, eins og aðrir hafa nefnt hér í sölum í dag, eflingu skógræktar og landgræðslu. Ég held að það sé mikill ávinningur af því að við eflum þennan þátt. Í öðru lagi langar mig að segja um aukna landvörslu að ég fagna því sérstaklega að ráðherra leggi áherslu á að við verndum landið okkar fyrir auknum ágangi ferðamanna; hann setur 16 millj. kr. í verkefnið og ég fagna því sérstaklega. Það kom fram fyrr í umræðunni að þessar 16 milljónir og það sem búið var að gera á þessu ári hafi mælst mjög vel fyrir.

Ég hvet ráðherrann til að fylgjast vel með þessu, hvort bæta þurfi í á komandi árum með auknum fjölda ferðamanna því að mér þykir ekki ólíklegt að við þurfum að bæta í þennan málaflokk.

Að lokum, af því að ég hef mikinn áhuga á hafinu, af mörgum ástæðum, vil ég draga það fram að ráðherrann er að leggja hér, eins og hún sagði, 51 milljón, í viðbót við það sem áður var, sérstaklega í hafið. Íslendingar hafa haft mestallt sitt af hafinu. Þó að ferðaþjónustan sé nú komin upp að hliðinni eða fram úr held ég að ekki sé hægt að leggja nógu þunga áherslu á að við vöktum og verndum hafið, fylgjumst með því hvað er að gerast þar í kring, í þessari auðlindakistu okkar.

Ég mun í seinni ræðu minni koma inn á eitt sem er ekki nefnt í þessu þingskjali, en aðeins hefur verið tæpt á því áður, en það er súrnun sjávar sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt mál.