145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:54]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Áður en ég fer í súrnun sjávar langar mig að nefna það, af því að það var aðeins nefnt í umræðunni áðan um loftslagsráðstefnuna sem verður í París í lok ársins, að mér finnst að Ísland ætti að vera leiðandi í þessu málefni á alþjóðavettvangi. Þó að sett verði töluleg markmið um hvert skuli stefna, þá sýnist mér á öðrum tölum sem hafa verið gerðar áður að eftirliti og eftirfylgni hjá þjóðum sé ábótavant og ég held að Íslendingar geti leitt alþjóðastofnun sem fer með eftirfylgni og eftirlit með öðrum til að fylgja eftir því sem verður ákveðið á loftslagsráðstefnunni í París.

Mig langar að nefna aðeins súrnun sjávar. Ég held að þetta sé eitt af mikilvægustu málefnunum fyrir Ísland; pH-gildið er að lækka meira hér en víðast hvar annars staðar í heiminum. Án þess að við séum meiri sóðar eða séum að menga meira en aðrir þá lendum við verr í því. Ég held því að við þurfum að hafa mjög öflugar rannsóknir í kringum landið til að geta mætt með þær upplýsingar á ráðstefnur erlendis og geta sagt frá því að við komum verr út úr þessu líffræðilega en aðrir. Það eru þá tölulegar upplýsingar til að berjast gegn súrnun sjávar af því að sum lönd, sem tilheyra meginlandinu, finna kannski lítið fyrir þessu, skilja lítið hvaða áhrif mengun hefur á hafið. Ég held að svona tölulegar upplýsingar um súrnun sjávar séu einn af lykilþáttum fyrir Ísland til að berjast fyrir á alþjóðavettvangi, til að koma okkar skoðunum á framfæri.