145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek sannarlega undir með þingmanninum varðandi málefni hafsins, að Íslendingar verði þar í fararbroddi og geti miðlað reynslu sinni og þekkingu á alþjóðavettvangi. Það höfum við gert varðandi jarðvarma.

Hv. þingmaður talaði um París — það taka sumir svo stórt upp í sig að segja að fundurinn í París í byrjun desember sé einhver mikilvægasti fundur sem haldinn hafi verið, alla vega um áratugaskeið ef ekki lengur. Ég veit ekki hvort maður á að taka svo stórt upp í sig, en þjóðir heimsins horfa til Parísar. Ríkisstjórnin í Frakklandi leggur ofurkapp á að fundurinn í París takist vel, hefur verið að undirbúa hann með því að ferðast um heiminn nú í sumar og halda ráðstefnur í mörgum löndum.

Við erum núna að fá forsætisráðherra Frakka á fund í næsta mánuði hingað til Íslands. Ég get sagt frá því hér að umhverfisráðherra Frakka kom í heimsókn í sumar. Ég hitti hana á okkar ágæta stað Þingvöllum, af því að Þingvellir hafa verið hér til umræðu, og ráðherrann var ekki hvað síst að kynna sér þekkingu okkar varðandi jarðvarmarannsóknir og vildi fá að deila henni með okkur og kynna hana. Hún hafði mikinn áhuga á jarðvarma til að geta stuðlað að slíkri orkunýtingu þar sem hún hefði áhrif, bæði í Frakklandi sem og á öðrum stöðum þar sem Frakkar hafa hönd í bagga með ríkisstjórnum eða atvinnulífi.