145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Meginstefið í fjárlagafrumvarpi næsta árs að því er lýtur að heilbrigðismálum er að heilsugæslan verður efld til muna, við veitum aukið fé til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma, framkvæmdir við nýjan Landspítala eru tryggðar og rekstrargrunnur stóru sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er treystur enn frekar en gert hefur verið á síðustu árum.

Á heildina litið eru meginlínurnar þær að heildarútgjöld til heilbrigðismála nema rétt tæpum 162 milljörðum kr. á árinu 2016. Það er aukning til útgjalda heilbrigðishluta fjárlaganna um 10%, þ.e. 14,5 milljarða kr. Vissulega eru launa- og verðlagsbreytingar taldar þar með en raunaukning til heilbrigðismála á árinu 2016, samkvæmt frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir, nemur 4,4 milljörðum kr.

Ef maður horfir á framlög til heilbrigðismála frá fjárlögum ársins 2013 og tekur þetta saman þá hafa útgjöldin aukist á fjárlögum 2014, 2015 og til og með 2016 um rúma 34 milljarða kr. Raunaukning útgjalda, þ.e. vöxtur í heilbrigðisþjónustunni, á þessum þremur fjárlagaárum er þá rétt rúmir 16,4 milljarðar kr. Það er viðbót við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt var á árinu 2013. Þarna er um að ræða verulega fjármuni.

Í fjárlögum næsta árs er því svigrúmi sem gefið er til fjárútláta forgangsraðað með þeim hætti að heilsugæslan verður í forgangi. Framlög til heilsugæslunnar og heimahjúkrunar eru aukin verulega með áherslu á ýmis verkefni á næsta ári. Þar vil ég nefna sérstaklega að sérfræðingum í heimilislækningum verður fjölgað, stöðum sálfræðinga verður fjölgað til muna og aukin framlög í námsstöður í heimilislækningum sem og heilsugæsluhjúkrun. Með þessum hætti endurspeglar í rauninni fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur hér fyrir, að því sem snýr að heilbrigðishlutanum, afdráttarlausa stefnu stjórnvalda í þá veru að heilsugæslan eigi að vinna með þeim hætti að hún sé fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu og geti staðið undir því merki. Að sjálfsögðu mun það taka okkur einhvern tíma að ná þeim áfanga að allir verði fullkomlega ánægðir.

Ég vil nefna það hér að framlög til heimahjúkrunar munu hækka um 200 millj. kr. Við byrjum á því að jafna þjónustustig á landsvísu þannig að þjónustustigið verði það sama hvort heldur menn búa á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. Það er ákveðinn ójöfnuður þar í gangi.

Ég vil nefna sömuleiðis að við erum núna með í undirbúningi áætlun í geðheilbrigðismálum og erum að setja inn sérstaka fjárveitingu með það að markmiði að bæta þjónustu heilsugæslunnar og bæta aðgengi að henni, ýta undir þverfaglega vinnu með því að bæta við stöðu sálfræðinga. Við höfum núna 15 stöður sálfræðinga í heilsugæslunni á landinu öllu. Við höfum verið að skoða breskt módel sem vinnur á þeim grunni að ein staða sálfræðings eigi að geta þjónustað nánast 9 þús. manns. Til þess að við náum því þyrftum við að vera með rúmlega 36 stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslunni á Íslandi. Við erum að setja okkur markmið núna um að fjölga sálfræðingum um átta stöður í heilsugæslunni á Íslandi. Ég sé fyrir mér að við getum á næsta ári, að því gefnu að frumvarpið gangi svona eftir, boðið upp á sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Ég vil nefna það líka að við erum að efla nám í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun. Við höfum fjölgað árlega undanfarin þrjár ár í námsstöður heimilislækna og gerum ráð fyrir því að við frumvarpið á næsta ári verði þær stöður orðnar 20 á árinu 2016. Við erum að flytja umsýslu þeirra út til heilbrigðisstofnananna þannig að þær ráði þar sjálfar. Sömuleiðis erum við að fjölga stöðum sérfræðinga í heimilislækningum.

Ég vil nefna það líka að við gerum ráð fyrir því að hefja byggingu og undirbúning að byggingu þriggja hjúkrunarheimila á næsta ári. Við erum að auka fjármuni til tannlækninga barna þar sem við munum bæta við tveim nýjum árgöngum barna sem hafa öðlast rétt til tannlæknaþjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Loks vil ég nefna hið stóra verkefni sem ég gat stuttlega um áðan, að uppbygging Landspítalans við Hringbraut er hafin, komin á fullan skrið og hönnunin á meðferðarkjarnanum er komin í samning. Við buðum út byggingu sjúkrahótels í síðustu viku eða vikunni þar á undan og framkvæmdir við það munu hefjast á hausti komanda. Það verkefni er komið á góðan skrið.

Ég hlakka til að eiga orðastað við þingmenn í umræðunni hér á eftir.