145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og lýsi því yfir að við erum að vinna að fjármögnun heilsugæslunnar á grundvelli þeirra verkefna sem hafa verið kynnt undir verkefninu Betri heilbrigðisþjónusta 2013–2017, sem ég veit að hv. formaður velferðarnefndar þekkir. Ég þakka sömuleiðis þau orð sem féllu hér um byggingaráformin við Landspítalann.

Þegar rætt er um niðurskurð á Landspítalanum er það dálítið merkilegt. Auðvitað þiggjum við alls staðar aukið fé. Þegar maður horfir og greinir fjárveitingar til Landspítalans eða spítalanna sjálfra hefur raunaukning í fjárveitingum til Landspítalans ein og sér verið 4,3 milljarðar kr. á tveimur, þremur árum. Það er raunaukning. Þá er maður búinn að skilja frá launabreytingar o.fl. Raunaukning til spítalanna er 15,7% á tímabilinu 2013–2016. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og alls staðar getum við nýtt meiri fjármuni.

Ég tek undir athugasemdir hv. þingmanns varðandi sérgreinalæknasamningana. Það sem þar er hins vegar á ferðinni er að ríkissjóður er að greiða niður hlut sjúklinga í þessari þjónustu. Á tímabilinu 2010–2013 hækkaði hlutdeild sjúklinga úr 29% upp í 42%. Við erum að greiða þetta niður núna þannig að hlutdeildin er farin úr 42% niður í 30%. Ríkissjóður er að taka á sig töluverðan hluta af kostnaði vegna þessa. Þarna er um mjög mikilvæga þjónustu að ræða því að heimsóknir til (Forseti hringir.) sérfræðinganna eru um 250 þúsund á ári. Þetta er stór hluti íslenskrar þjónustu en ég tek undir þær athugasemdir sem lúta að því að það þarf að gera breytingar á þeim samningi eða því fyrirkomulagi sem þar er (Forseti hringir.) í gangi.