145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi fjármunina til Landspítalans og þegar því er haldið fram að framlögin til hans séu að lækka þá fullyrði ég að framlögin til Landspítalans til rekstrar og þjónustunnar eru ekki að lækka. Það á sér enga stoð. Tölurnar tala allt öðru máli.

Það er rétt að álagið hefur verið að aukast á Landspítalann sem og aðra þjónustu. Hvernig mætum við því? Við mætum því með tvennum hætti, annars vegar í fjárlögunum núna með því að styrkja heilsugæsluna og styrkja heimahjúkrunina. Til hvers? Til þess að draga úr álagi inn á sérstaklega bráðadeildir Landspítalans. Við erum með sama hætti búin að setja inn ákveðna fjármuni til að draga úr og auka í rauninni getu Landspítalans til að þjóna betur en áður var þannig að uppsöfnunin verði ekki jafn mikil og þegar við opnuðum Vífilsstaði. Við erum með sama hætti að taka á ákveðnum verkefnum sem hann þarf að skila með því að fara í biðlistana. Hér var kynnt fyrir ekki ýkja löngu áætlun um að vinna þá niður. Í það fara gríðarlegir fjármunir sem munu að sjálfsögðu létta á starfsumhverfi spítalans í þeirri stöðu sem hann er í núna að þurfa með einhverjum hætti að forgangsraða verkefnum miðað við núverandi fjárveitingar en taka jafnhliða á vanda sem hefur safnast upp í verkföllunum á þessu og liðnu ári.

Varðandi sérgreinalæknana svo að ég botni þá umræðu þá hef ég beðið í nokkurn tíma eftir tillögum ráðuneytisins um endurskoðun á þeim samningi. Ég veit ekki nákvæmlega hvar það verk er statt en það er alveg ljóst að forsendan til þess að geta komið böndum á þessa þjónustu er tvíþætt, annars vegar sú að við séum með samning við sérgreinalæknana um þá þjónustu sem þeir eiga að inna af hendi. Það gengur ekki að vera með þetta samningslaust eins og var á árunum 2010–2013 þar sem þeir höfðu bara sjálfdæmi um verðlagningu á þjónustunni. Hins vegar þurfum við að koma upp betri stýringu í heilsugæslunni sem kallar á það að fólk fari ekki inn í (Forseti hringir.) greiðslukerfi almennt á eigin forsendum án þess að koma við í heilsugæslunni sjálfri.