145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Fyrst vil ég afgreiða þetta með millifærsluna. Þar hafði Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins umsýslu með öllum námsstöðum heimilislækna úti um allt land og það er verið að færa þær námsstöður af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins út á viðkomandi heilbrigðisstofnanir. Þetta hefur ekki áhrif til útgjalda.

Varðandi hins vegar umræðuna um að Landspítalinn fái ekki nóg — ég skal tvímælalaust verða fyrstur manna til að fagna auknum fjármunum til heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Það er alls staðar hægt að nota meiri fjármuni, en ég minni þingmenn á að þegar við erum að ræða um að Landspítalinn fái ekki nóg hefur á síðustu þremur árum raunaukning til Landspítalans verið 15,7%, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 8,6% og heilbrigðisstofnana úti á landi 7,1%. Það er hins vegar enginn að ræða hana. Áherslan er öll á Landspítalann en vöxturinn þar er mestur, styrkurinn þar er mestur og ég er ekki að gera lítið úr því, hann þarf að hafa styrk. Ég bið engu að síður hv. þingmenn að gæta jafnræðis þegar við erum að ræða heilbrigðisþjónustuna í landinu. Eins og ég hef margsagt er áherslan núna á heilsugæsluna númer eitt, tvö og þrjú. Hún verður að vera í forgangi vegna þess að hún hefur setið eftir og þá þurfa aðrir einfaldlega að bíða.

Auknir fjármunir vegna biðlistanna. Ég geri ráð fyrir því að sú beiðni komi í fjáraukalagafrumvarpinu þegar það kemur fram í haust. Ég mun berjast fyrir því að koma því sem út af stendur inn á næsta ári því að það er alveg augljóst mál að við erum ekki að ljúka biðlistunum, þurrka þá upp á þessu ári eða því næsta. (Forseti hringir.) Það tekur að mínu mati hátt í tvö ár að komast út úr þessu ástandi.