145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:27]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gera góða grein fyrir þeim atriðum er snúa að ráðuneyti hans. Hann hefur farið mjög vel yfir marga þætti, bæði í ræðu sinni og jafnframt í svörum við þá hv. þingmenn sem hér hafa talað.

Það sem ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með er að verið sé að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklings. Það er afar mikilvægt upp á alla þjónustu sem veita þarf. Ég vil líka lýsa ánægju með að verið sé að auka aðgengi fólks að sálfræðingum með því að fjölga þeim verulega á heilbrigðisstofnunum víða um landsbyggðina. Auk þess er afar mikilvægt það sem við sjáum skýr merki um í fjárlagafrumvarpinu og þeim yfirlýsingum sem hæstv. ráðherra hefur komið fram með að nú er verið að spýta í er varðar Landspítalann og uppbyggingu á nýju sjúkrahúsi sem er mikilvægt fyrir okkur, alla Íslendinga. Auk þess er mjög ánægjulegt að sjá vel gefið í varðandi heimahjúkrun og það mun örugglega koma mörgum eldri borgurum landsins verulega til góða.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í sjúkrahúsið í Stykkishólmi og beiðni sem hefur borist frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, þetta eru þættir sem varða endurbætur á dvalarheimili og aðstöðu fyrir sjúkrabifreiðar. Ef hv. fjárlaganefnd þingsins mundi nú finna eitthvert svigrúm innan húss hjá sér, teldi ráðherra þá skynsamlegt að horfa til þeirra þátta að við gætum gefið örlítið inn sem ákveðnar vísbendingar um að þetta væru verkefni sem við vildum taka okkur fyrir hendur?