145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Það er rétt sem hann nefndi í ræðu sinni að fyrirhugaðar framkvæmdir í Stykkishólmi voru afar dýrar og nú hefur sú staða komið upp að hægt er að gera þetta fyrir minni pening. En maður heyrir mjög vel að mikill vilji er hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og hann gerir sér grein fyrir því að þetta eru verkefni sem eru til staðar og við þurfum að fara í.

Mörgum hv. þingmönnum verður tíðrætt um álagið á Landspítalanum og ég geri mér fulla grein fyrir því að það er mikið. Víða í kringum Reykjavík erum við með öflugar heilbrigðisstofnanir og við höfum séð merki um það að heilbrigðisstofnanir hafa á að skipa góðum læknateymum og sérfræðingum sem gætu tekið að sér verkefni sem hægt væri jafnvel að færa frá Landspítala til heilbrigðisstofnananna sem eru þá kannski í Kraganum eða á Vesturlandi. Er einhver viðræðugrundvöllur eða hvernig tæki ráðherra í að ræða við forsvarsmenn þeirra stofnana um að með einhverjum möguleika væri hægt að létta álaginu af Landspítalanum og gefa þeim heilbrigðisstofnunum aukaverkefni og efla þær um leið? Mér finnst umræðan oft snúast eingöngu um Landspítalann en við erum með heilbrigðisstofnanir víða um land og hæstv. heilbrigðisráðherra minntist á það áðan að við verðum að skoða heilbrigðismálin í samhengi við allar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.