145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir áhuga hans á málinu. Þetta er gríðarlega brýnt og ég vona að það sem ég sagði í fyrra svari mínu hafi ekki skilist með þeim hætti að við yrðum fyrst að byrja á því að greina ástæðurnar fyrir fjölguninni áður en við byrjuðum á því að hjálpa fólki. Það er langur vegur frá að ég hugsi þannig. Við þurfum að hjálpa fólki og svo getum við gefið okkur tíma til að vinna betur að greiningum og öðru því um líku.

Ég tek brýningu hv. þingmanns mjög vel og treysti á stuðning hans við að reyna að þoka málum til betri vegar. Eitt af því er að vekja athygli á þessu og ýta við viðkomandi yfirvöldum, hvoru tveggja ráðuneytinu en ekki síður þeirri þjónustustofnun sem við nýtum í þessum tilgangi. Við eigum mjög hæfileikaríkt fólk sem vinnur innan vébanda heilsugæslunnar en líka frábært fólk sem vinnur oft og tíðum jafnvel í sjálfboðamennsku á þessu sviði þjóðlífsins. Ef við getum á einhvern hátt stutt betur við bakið á því eigum við að gera það. Ég heiti því hreinlega að leita leiða til þess.