145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég svara fyrst því sem hún kom að síðast. Ég vil gjarnan horfast í augu við það að læknar eru hvorki betri né verri en við hin í þjóðfélaginu, það er bara þannig. Það er alltaf alls staðar ákveðinn freistnivandi í samfélaginu og í mínum huga er engin ein stétt mikilvægari en önnur í þessu ágæta landi okkar.

Ég lýsi því hér yfir við hv. þingmann og yfir salinn að ég mun kappkosta að standa vörð um þá grunnhugsun sem er í íslenska heilbrigðiskerfinu og hefur verið, þ.e. að við séum ekki með tvöfalt heilbrigðiskerfi í þessu þjóðfélagi. Það er veruleiki sem ég hef engan áhuga á að horfast í augu við. Það er eitthvað sem við eigum ekki að láta bjóða okkur. Við eigum að standa vörð um að svo verði ekki. Ég hef ekki heyrt neitt annað í umræðum um slíkt en mikinn samhljóm þingmanna um það grundvallaratriði að allir eigi að hafa sama aðgengi að þjónustunni.

Ég þakka þau orð sem féllu hér um styttingu biðlistanna. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni. Það er grundvallaratriði að vinna að því að lágmarka þá hættu sem er að myndast í þessu ástandi og vinna betur á þeim biðlistum sem hafa safnast.

Ég skil hv. þingmann og ræðu hennar á þann veg að við séum í grundvallaratriðum sammála um grunnstoðir íslenska heilbrigðiskerfisins.