145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða svona „mutual admiration society“. Ég þakka ráðherranum fyrir þessar yfirlýsingar. Ég held að þær skipti máli. Það skiptir máli að þetta sé sagt úr þessum ræðustól og að heilbrigðisráðherra geri það.

Mig langar til að spyrja ráðherrann að öðru. Stundum finnst mér fólk forðast að tala um hluti sem eru svolítið erfiðir. Ég er ekki sammála þeirri aðferð. Við eigum að tala um það sem við höfum áhyggjur af. Mig langar til að spyrja um jáeindaskannann sem íslenskt fyrirtæki ákvað að gefa íslenska ríkinu. Ég hef skilið það þannig að vandræðin við þennan skanna séu þau að það þurfi að byggja í kringum hann. Þá langar mig til að spyrja: Vinnur ráðherrann eða ráðuneytið að því með Landspítalanum að finna lausn á þessu? Það er svo lítið mál í samanburði við að það er búið að gefa okkur þennan skanna að við byggjum yfir hann og gerum það ekki eftir tvö eða þrjú ár heldur helst strax í dag.