145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar innlegg. Ég er á þeirri skoðun að við getum ekki keyrt þetta hraðar en við höfum verið að gera, af því að hv. þingmaður nefndi það að við hefðum þurft að vera búin að þessu fyrir löngu. Ég er sammála því en við þurfum að setja þetta allt í samhengi, það er svo margt sem við hefðum þurft að vera búin að gera fyrir löngu og við verðum að horfa á umræðuna, vinnuna og getuna til góðra verka í stærra samhengi. Eins og hv. þingmaður varð vitni að áðan þá kvörtuðu þingmenn fyrr í þessari umræðu undan því að ekki væri nóg lagt í Landspítalann. Ég get alveg tekið undir það en á sama tíma horfum við upp á að heilbrigðisstofnanir annars staðar hafa verið að fá miklu minna en Landspítalinn og svo framvegis.

Hugsunin með þessum stöðum sálfræðinga er sú að við getum innan heilsugæslunnar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins verið með einhvers konar sálfræðiþjónustu. Í dag er það bara á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og á Suðurnesjum og þar eru um það bil 15 stöður og reyndar hálf staða á Austurlandi. Við gerum ráð fyrir að bæta við átta stöðugildum þannig að við séum með þessa þjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum og á öllum heilbrigðisstofnunum landsins.

Ég hef heyrt umræðuna um næringarfræðinga og þá segi ég bara: Fjármunirnir setja okkur ákveðnar skorður og það á örugglega eftir að koma síðar. Vilji minn stendur vissulega til þess. Varðandi heilsugæsluhjúkrunina þá störtuðum við verkefni á síðasta ári í samstarfi við Háskólann á Akureyri og þá vorum við með sex stöður í heilsugæsluhjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Nú munum við sennilega bæta við fjórum stöðum, við fjölgum námsstöðunum, og þá verða þær á heilbrigðisstofnunum annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Við erum að víkka verkefnið út og verðum þá í raun með tíu námsstöður í heilsugæsluhjúkrun. Við skjótum styrkari stoðum undir heilsugæsluna með því að treysta nám í þessum fræðum.