145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi lyfin, svo að ég vitni aftur í fund heilbrigðisráðherra Norðurlanda sem ég var á í Kaupmannahöfn í fyrradag, þá var sýklalyfjaónæmi eitt af því sem við ræddum þar. Að mati margra sérfræðingar er það einhver mesta vá sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustunni.

Íslendingar hafa verið háir í notkun á sýklalyfjum í samanburði við Norðurlöndin en við erum lægst í sýklalyfjanotkun vegna dýra. Matvaran sem við erum að vinna með er að því leyti til afburðafæða. Við höfum gert ákveðnar breytingar í heilbrigðisþjónustunni til að reyna að draga úr notkun sýklalyfja. Bólusetning barna undir fimm ára við eyrnabólgu bar þann árangur að það dró gríðarlega mikið úr sýklalyfjanotkun þeirra barna. Og svo er bólusett við fleiru en eyrnabólgu.

Tvö heilbrigðisumdæmi voru tekin út, Austurland og Suðurland, með það fyrir augum að reyna að draga úr sýklalyfjanotkun og mér er tjáð að árangurinn af því sé jákvæður.

Það er því ýmislegt sem hægt er að gera til að draga úr óæskilegri notkun. Hversu langt við eigum að ganga í því, ég er ekki dómbær á það, fagfólk okkar verður að svara til um það. Ég hef í þessum efnum verið í mjög góðu samstarfi við landlæknisembættið og sóttvarnalækni. Við erum aftur á móti núna í miðju kafi, í miðri vinnu, við að endurskoða hvort tveggja lyfjastefnu ríkisins og lyfjalögin sem ég vonast til að geta lagt fyrir þingið á vorþingi. (Forseti hringir.) Þar gefst okkur tækifæri til þess að móta frekari og skýrari reglur sem gera okkur kleift að taka betur á í þessum málaflokki.