145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég met það mikils að hann er sáttur við þá aukningu sem við stöndum fyrir í ýmsum málaflokkum þrátt fyrir að hann kysi að leggja það út á þann veg að við hefðum séð að okkur. Við vildum þvert á móti gera þetta með þeim hætti að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs fyrst og eiga fyrir því sem við verjum í þessa sjóði. En það er gott að við erum sammála um það.

Varðandi Ísland allt árið tek ég undir það með hv. þingmanni að það hefur verið afar farsælt verkefni. Það var mjög gott þegar því var komið af stað á sínum tíma. Ég er líka ánægð með það fyrirkomulag að vinna þetta krónu á móti krónu með atvinnulífinu. Ástæða þess að við sækjum ekki fjármagn til verkefnisins er sú að við erum meðal annars að skoða vilja samstarfsaðilanna til framhalds verkefnisins. Það verður að viðurkennast að þegar við vorum að klára núverandi samning fundum við fyrir ákveðinni tregðu hjá samstarfsaðilum og það skýrist kannski af því að ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið og menn hafa þá viljað forgangsraða fjármunum í annað.

Af því að hv. þingmaður spurði mig að því er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að halda áfram að markaðssetja Ísland og einmitt með þeim áherslum sem við viljum hafa, markaðssetja veturinn, markaðssetja allt Ísland allt árið. Við munum gera það, alveg eins og Coca Cola heldur áfram að auglýsa þó að allir þekki það held ég að við eigum ekki að hætta því að auglýsa Ísland. Til þess stendur vilji minn, en auðvitað þarf að líta til þeirra sjónarmiða sem eru í greininni sjálfri hvað það varðar. (Forseti hringir.) Við munum ljúka þeirri vinnu í tæka tíð fyrir fjárlagagerðina fyrir næsta ár.

Ég mun fjalla um framkvæmdasjóðinn og fluggáttina í næsta svari mínu.