145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum þegar tíminn er svona naumur. Þess vegna valdi ég að taka aðeins fyrir eitt svið af víðtæku málasviði ráðherrans og það eru ferðamálin, enda eru þau mér býsna hugleikin.

Ég vil bæta við í sambandi við markaðssetninguna að ég held að það sé algjörlega fráleitur hlutur að hætta því að reyna að byggja á einhverri metinni og yfirvegaðri stefnu um það hvernig við högum almennt kynningarmálum landsins. Það er enginn vafi á því að Inspired by Iceland og síðan Ísland allt árið settu þessi mál í ákveðinn farveg, breiðari en jafnvel nam þeim fjármunum sem þar fóru í gegn, vegna þess að þarna voru slegnir tilteknir tónar, og um ferðamennsku yfir veturinn og allt landið undir og annað í þeim dúr.

Ég ætla að leyfa mér að nefna betur borgandi ferðamenn, að við reynum eftir atvikum að haga landkynningu okkar og áherslum þannig að þeir sem hingað koma gefi að breyttu breytanda meira af sér en minna, einfaldlega vegna þess að við ráðum ekki við endalausan og ótakmarkaðan fjölda. Þá er það augljóslega skynsamleg áhersla að reyna að ná þá hlutfallslega miklu af ferðamönnum sem skilja eftir veruleg verðmæti í hagkerfinu. Af slíkum ástæðum og mörgum fleirum tel ég fráleitt að hætta þessu og hvet til þess að haldið verði áfram og reynt að laða fram góðan vilja til að halda þessu samstarfi áfram, menn geta auðvitað rætt um kostnaðarskiptinguna.

Til þess að þetta gagnist okkur síðan þurfum við rannsóknir. Ég bið ráðherra að koma aðeins inn á það í seinna svari sínu. Við þurfum greiningarvinnu, við þurfum rannsóknir. Það er allt of brotakennt, ég tala nú ekki um á meðan við höfum enga almennilega ferðaþjónustureikninga frá Hagstofunni eða þeir eru gerðir með margra ára millibili. Þetta er ekki boðlegt ástand í stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar. Ef við horfum á það sem fer í rannsóknir til ýmissa annarra greina, sem ég sé ekki eftir, þá er það algjörlega absúrd að þessi gríðarlega mikilvæga grein okkar skuli vera svona svelt að þessu leyti.