145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í byrjun fagna því að frumvarpið lítur auðvitað allt öðruvísi út en fyrsta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar hvað varðar Tækniþróunarsjóð, nýsköpunarmiðstöð og uppbyggingu stoðkerfis þekkingar í landinu. Það er gott að sjá að ríkisstjórnin hefur séð að sér og snúið til baka frá þeirri meinloku að fella þau framlög niður í upphafi sinnar vegferðar.

Varðandi ferðamálin þá vil ég halda aðeins áfram með þá umræðu sem átti sér stað milli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og ráðherra hér áðan. Það sem mér finnst vera verulegt áhyggjuefni er að við erum algerlega að klúðra því að búa til opinbera umgjörð um starfsaðstæður þeirrar grundvallargreinar íslensks atvinnulífs sem ferðaþjónustan er að verða núna. Hér er verið að fella niður tímabundið framlag til rannsókna í ferðamálum. Ef það er einhver grein þar sem við eigum gríðarlega mikið undir því að hækka þekkingarstigið þá er það einmitt ferðaþjónustan. Allar hagtölur gefa okkur til kynna að sú mikla fjölgun starfa sem þar hefur orðið sé óþægilega mikil í láglaunastörfum og þess vegna þurfi nauðsynlega að taka upp þekkingarstig í greininni til að auka arðsemina af henni.

Í annan stað erum við auðvitað búin að klúðra núna tækifæri til að leggja gjöld á greinina og hjálpa henni til að hækka verð á þessum miklu útþenslutímum. Sumir sögðu við mig á ferðum mínum um land núna síðustu daga þar sem ég hitti fjölmarga sveitarstjórnarmenn og aðila í atvinnulífi að við værum að gera sömu mistökin og þegar hið ágæta kvótakerfi var sett á þegar við gleymdum að leggja til umgjörð um það hvernig ætti að greiða gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind. Það sama væri að gerast í ferðaþjónustunni núna, menn gengju bara fram og vegna þess að gjaldtökumálin voru í algeru uppnámi og hafa verið í uppnámi síðustu ár hefur aldrei komið til þess að útfært hafi verið trúverðugt gjaldtökukerfi. Og óháð því þótt ekki takist að útdeila fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er það bara sjálfstætt markmið að taka gjöld af greininni á þessum uppgangstímum núna og safna í sjóði. Þó að ekki sé hægt að úthluta fjármununum núna verður það hægt síðar. Ég vil velta því upp hver heildarstefnan er varðandi þessa þætti. Hvar verður rannsóknum fyrir komið í ferðaþjónustu? Hvaða hagtölubreytingar verða gerðar til þess að greina raunverulegt umfang ferðaþjónustunnar og þýðingu hennar fyrir okkur? Og hvað með gjaldtökuna? Ætlar ráðherrann ekki að koma með neitt frumvarp um gjaldtöku af ferðamönnum?