145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er á svipuðum nótum og fyrri ræðumaður, heldur því fram að ríkisstjórnin hafi séð að sér vegna aukningar í Tækniþróunarsjóð og aðra rannsóknasjóði. Mig langar að ítreka það sem ég sagði áðan. Það var ekki vegna þess að við trúðum ekki á mátt rannsókna og tækniþróunar sem þessi nefnda fjárfestingaráætlun var slegin út af borðinu heldur var það af allt öðrum ástæðum sem þingmanninum ætti að vera gersamlega kunnugt um og það var vegna þess að hún var ekki fjármögnuð eins og menn muna.

Núna þegar við erum búin að koma ríkisfjármálunum í það horf að við eigum fyrir þessum málum, sem ég get alveg tekið undir að eru góð, er það að sjálfsögðu forgangsmál okkar að bæta í enda standa þessir rannsóknarsjóðir sig vel.

Varðandi ferðamálin þá hryggir það mig að heyra svona málflutning þegar því er haldið fram að við séum búin að klúðra hlutum. Við erum með stórkostlega atvinnugrein sem gefur gríðarlega miklar tekjur. Við erum í vaxtarferli og við erum núna í mjög góðu samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar við að gera einmitt það sem kannski hefði átt að gerast á seinasta kjörtímabili eða jafnvel kjörtímabilinu á undan eða þar á undan að búa til stefnu fyrir ferðaþjónustuna til skamms og langs tíma. Við höfum verið að vinna þessi mál allt of sundurlaust. Við þurfum að vinna betur saman og við þurfum að ákveða í hvaða átt við ætlum að fara og hvernig. Rannsóknir eru þar undir. Við þurfum að auka þær en ekki bara einhverjar rannsóknir hingað og þangað. Það er nefnilega verið að rannsaka þessi mál hingað og þangað. Við þurfum að draga þær rannsóknir saman og hafa tæki til að hafa yfirsýn.

Varðandi orð hv. þingmanns um gjaldtöku vil ég nota tækifærið og spyrja hann, þótt ég viti að það sé ekki tilgangurinn á þessum tíma: Á það virkilega að vera eins og mér heyrðist hv. þingmaður segja sjálfstætt markmið að taka gjöld af greininni? Ég er bara algerlega ósammála því. (Forseti hringir.) Ég held að það sé sjálfstætt markmið okkar að efla veg og vanda ferðaþjónustunnar og gera okkur sem samfélag og þjóðfélag og efnahagskerfi betur til þess fallið (Forseti hringir.) að taka á móti þeim fjölda ferðamanna með þeim sóma sem við viljum sýna ferðamönnum í landinu.