145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað sjálfstætt markmið að greinin greiði fyrir sameiginlegan aðgang að auðlindum og þann kostnað sem þjóðin hefur af því að tryggja aðstöðuna sem hún nýtir. Ég ítreka spurninguna um það: Ætlar ráðherrann ekki að koma með frumvarp um gjaldtöku af ferðamönnum til að standa undir kostnaði vegna uppbyggingar?

Það er óskiljanlegt sem hæstv. ráðherra segir að það eigi að auka rannsóknir en besta leiðin til þess sé að fella niður framlag til rannsókna. Ég hlýt auðvitað líka að spyrja að því af hverju ríkið er að fella niður framlögin til átaksins Ísland allt árið sem hefur skilað miklum árangri og er mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í hinum dreifðu byggðum og hefur byggt mjög mikið upp og styrkt stoðir ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Það er vissulega þannig að ferðafólki fjölgar en það skiptir máli að dreifa álaginu og styðja við fjárfestingu í greininni í hinum dreifðu byggðum. Mér finnst þetta allt bera þess merki að heildarsýn skorti um það hvert skuli stefnt. Ég hef heyrt frá lykilaðilum í greininni að þeir séu mjög hissa yfir þessum fjárlagatillögum og ég hef heyrt það líka frá ferðaþjónustuaðilum úti á landi að þeir eru mjög ósáttir við þá tillögu (Gripið fram í: Hvaða?) að fella niður framlagið til verkefnisins Ísland allt árið.

Þess vegna ítreka ég spurninguna: Er ekki að vænta frumvarps um gjaldtöku af ferðamönnum? Er ráðherrann bara búin að gefast upp á því að reyna að láta þá sem eru að nýta sér aðstöðuna í atvinnuskyni greiða kostnaðinn af því? Og hvernig á að koma fyrir rannsóknum ef framlag ríkisins til rannsókna er að fella niður það framlag sem hefur verið á fjárlögum? Það þarf aukna þekkingu og hærra þekkingarstig í greininni. Það er grundvallaratriði til að okkur takist að fá meiri arð út úr henni.