145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:29]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það hefði verið ágætt ef hv. þingmaður hefði hlustað á orðaskipti okkar hæstv. forseta hér áðan, það er ekki verið, og ég tók það sérstaklega fram í minni framsögu líka, að fella niður framlag til Ísland allt árið. Það er fjármagnað út næsta ár og við tökum um það ákvörðun og höfum tíma til þess fyrir fjárlagagerðina fyrir árið 2017 að meta hvort við viljum halda þeirri vinnu áfram. Eins og ég sagði, við erum í stefnumótunarvinnu og út úr henni koma margvíslegar tillögur og þetta fer inn í þann flokk. Það hefur því ekki verið tekin ákvörðun um þetta.

Hv. þingmaður spyr um gjaldtökufrumvarp. Nei, ég hef ekki í hyggju að koma fram með gjaldtökufrumvarp í haust. Við höfum verið að breyta skattlagningu á ferðaþjónustunni. Við höfum breikkað og einfaldað virðisaukaskattskerfið. Neðra virðisaukaskattsþrepið var hækkað eins og menn muna. Við erum að fækka undanþágum og taka fleiri geira ferðaþjónustunnar inn í virðisaukaskattskerfið sem hefur tekjuaukandi áhrif. Við munum í kjölfar þeirrar stefnumótunarvinnu sem ég nefndi taka þetta einmitt út frá því sem hv. þingmaður talar um, að hér skorti heildarsýn. Já, það hefur skort heildarsýn. Við erum að bæta úr því, ólíkt því sem hefur verið gert áður, vegna þess að við þurfum að horfa á þetta í stóra samhenginu og það ætlum við að gera.

Varðandi það að taka gjöld fyrir veitta þjónustu get ég tekið undir með þingmanninum en bendi á að það eru gjaldtökuheimildir í bæði lögum um skipan ferðamála, í öllum lögum um þjóðgarðana og í náttúruverndarlögum til að taka gjöld fyrir veitta þjónustu. Það þarf ekki að breyta lögum til þess eins og sést til að mynda á Þingvöllum, við Gullfoss og í Dimmuborgum þar sem er rukkað fyrir salernisaðstöðu og eins og menn vita er í hyggju í Þingvallaþjóðgarði að gera það líka með bílastæði.